Vísa þurfti nokkrum erlendum fjölskyldum frá gönguleið A að gosstöðvunum í Meradölum vegna ungs aldurs barna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Foreldrum með börn yngri en 12 ára verður snúið frá leið A af öryggisástæðum að svo stöddu segir í tilkynningunni.
„Börn hafa minna þol gagnvart loftmengun og eru skilgreind sem viðkvæmur hópur. Þá er ekki ráðlegt að börn dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum.“
Foreldrum ungra barna er bent á auðvelda leið inn í Nátthaga þar sem skoða má hraunið sem rann í gosinu í fyrra. Þaðan sést þó ekki til gossins inn í Meradölum.
Gönguleið A var lokað frá klukkan fjögur í nótt vegna framkvæmda en hún opnaði aftur klukkan níu í morgun, enn er þó unnið að lagfæringum á þessari leið.
Í tilkynningu lögreglustjórans kemur fram að eftirlit viðbragðsaðila gekk vel í gærkvöldi og í nótt en mörgum hafi reynst gangan erfið og þurfti að aðstoða suma við að komast niður af fjallinu.
Samkvæmt talningu Ferðamálstofu fóru 5.064 um gossvæðið í gær.
Þá er bent á að gasmengun gæti safnast saman nær gossvæðinu í kvöld og í nótt.
„Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mengunin leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgossins með vindinn í bakið.“
Í tilkynningunni segir að í hægviðri getur gas safnast fyrir í lægðum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar.
„Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.“