Bærinn bætir gönguleiðina að gosinu

Útgangspunkturinn er að gera gönguleiðina betri fyrir almenning, minnka slysahættu …
Útgangspunkturinn er að gera gönguleiðina betri fyrir almenning, minnka slysahættu og auka aðgengi bæði vegfarenda og viðbragðsaðila. Hákon Pálsson

Búið er að stika framlenginu á gönguleið A sem nær að nýju gossprungunni. Þá verða sett upp ljós með 100 metra millibili þar sem líkur eru á villum. Er þetta liður í því verkefni sem Grindavíkurbær hefur sett af stað í samstarfi við Eflu verkfræðistofu, almannavarnir og landeigendur. 

„Útgangspunkturinn er að gera gönguleiðina betri fyrir almenning, minnka slysahættu og auka aðgengi bæði vegfarenda og viðbragðsaðila,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna. 

Bíða eftir vonda veðrinu

Spurð hve langan tíma sé búist við að framkvæmdirnar taki, segir Hjördís að um síverk sé að ræða sem muni vera í gangi næstu daga. 

„Við reynum að nota alla glugga sem myndast. Vinnuvélarnar eru á svæðinu núna og svo er farið aðeins eftir veðri.“

Framkvæmdaaðilar bíða þó ekki eftir góða veðrinu, heldur slæma veðrinu. Þá eru gönguleiðirnar ekki eins vel sóttar og bæði öruggara og auðveldara að athafna sig, að sögn Hjördísar. 

Gera leiðina færa torfærubílum

Aðfaranótt laugardags lokaði gönguleið A milli klukkan 4 og 9 að morgni. Þá var verið að bæta hina svokölluðu „sikk sakk brekku,“ en þegar eldgos braust út í Geldingadölum var kaðli komið fyrir í þessari sömu brekku sem varð svo þekktur sem „Covid-kaðallinn.“

„Þetta er brött brekka og við sjáum nú að það er öruggara að hafa gönguleiðina svona „sikk sakk“ heldur en beina. Við vorum að gera hana betri með hjálp stórra vinnuvéla og þá komast líka torfærubílarnir upp og niður brekkuna.

Þannig er stefnt að því að gönguleiðin verði nægilega breið til þess að hún verði fær á torfærubílum björgunarsveitarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert