Einhverjir brenndir eftir síðasta eldgos

Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar.
Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Bogi Ad­olfs­son, formaður Þor­bjarn­ar, björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar í Grinda­vík, fagn­ar því að land­verðir komi til með að létta und­ir með björg­un­ar­sveit­um við gosstöðvarn­ar. „Mér líst mjög vel á þetta, þeir komu að góðu gagni síðast.“

Spurður hvort það muni duga til þess að létta álag­inu af björg­un­ar­sveit­inni, seg­ir Bogi það verða að koma í ljós. 

„Við verðum alltaf með ann­an fót­inn þarna, en því minna því betra.“

Vísa barna­fólki í Nátt­hag­ann

Björg­un­ar­sveit­in hef­ur ekki tekið á sig að snúa fólki við, sem ferðast með börn yngri en tólf ára, enda hef­ur hún ekki vald­heim­ild­ir til þess. 

„Lög­regl­an sér um það, en við bend­um fólki á þetta og köll­um lög­regl­una stund­um til.“

Bogi seg­ir fólk sjald­an bregðast illa við, en þá sé það helst vegna þess að það vissi ekki af tak­mörk­un­um sem sett­ar hafa verið, og hafði gert sér sér­staka ferð að gos­inu með börn­in. 

„Þá út­skýr­um við bara hver til­gang­ur­inn sé með þessu og vís­um fólki á Nátt­hag­ann að gamla hraun­inu, sem er líka sjón­arspil út af fyr­ir sig.“

Að detta inn í myrkra­tíma­bil

Hann seg­ir mikla hjálp hafa verið í lög­regl­unni til þessa og það komi sér vel að gosið sé á svipuðum stað og síðast. „Þannig gát­um við nýtt ýmsa innviði frá síðasta gosi, eins og bíla­stæðin.“

Þá von­ast hann til þess að fram­kvæmd­ir við göngu­leið A muni gagn­ast þannig að aðgengi verði betra, fólk hrasi síður og að lýs­ing­in komi til með að draga úr lík­un­um á því að ein­stak­ling­ar vill­ist af leið. 

„Við erum að fara inn í skamm­degið núna svo það er mik­il­vægt að hafa þetta í lagi.“

Álagið var mikið og langt

Bogi seg­ir mönn­un Þor­bjarn­ar góða, björg­un­ar­sveit­ar­mönn­um hafi fjölgað frek­ar en fækkað, með eld­gos­un­um. „Þetta er auðvitað mjög fal­legt og spenn­andi, en svo er þetta meiri­hátt­ar vinna og hér eru all­ir í sjálf­boðastarfi.“

Hann viður­kenn­ir að ein­hverj­ir séu enn brennd­ir eft­ir fyrra eld­gos, þar sem álagið hafi verið mikið og langvar­andi. Þá geti orðið vanda­samt að manna vakt­ir til eft­ir­lits og fræðslu á gosstöðvun­um.  

„Okk­ar sér­hæf­ing er leit og björg­un, svo þarna erum við aðeins kom­in út fyr­ir þann ramma.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert