Einhverjir brenndir eftir síðasta eldgos

Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar.
Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar, björgunarsveitarinnar í Grindavík, fagnar því að landverðir komi til með að létta undir með björgunarsveitum við gosstöðvarnar. „Mér líst mjög vel á þetta, þeir komu að góðu gagni síðast.“

Spurður hvort það muni duga til þess að létta álaginu af björgunarsveitinni, segir Bogi það verða að koma í ljós. 

„Við verðum alltaf með annan fótinn þarna, en því minna því betra.“

Vísa barnafólki í Nátthagann

Björgunarsveitin hefur ekki tekið á sig að snúa fólki við, sem ferðast með börn yngri en tólf ára, enda hefur hún ekki valdheimildir til þess. 

„Lögreglan sér um það, en við bendum fólki á þetta og köllum lögregluna stundum til.“

Bogi segir fólk sjaldan bregðast illa við, en þá sé það helst vegna þess að það vissi ekki af takmörkunum sem settar hafa verið, og hafði gert sér sérstaka ferð að gosinu með börnin. 

„Þá útskýrum við bara hver tilgangurinn sé með þessu og vísum fólki á Nátthagann að gamla hrauninu, sem er líka sjónarspil út af fyrir sig.“

Að detta inn í myrkratímabil

Hann segir mikla hjálp hafa verið í lögreglunni til þessa og það komi sér vel að gosið sé á svipuðum stað og síðast. „Þannig gátum við nýtt ýmsa innviði frá síðasta gosi, eins og bílastæðin.“

Þá vonast hann til þess að framkvæmdir við gönguleið A muni gagnast þannig að aðgengi verði betra, fólk hrasi síður og að lýsingin komi til með að draga úr líkunum á því að einstaklingar villist af leið. 

„Við erum að fara inn í skammdegið núna svo það er mikilvægt að hafa þetta í lagi.“

Álagið var mikið og langt

Bogi segir mönnun Þorbjarnar góða, björgunarsveitarmönnum hafi fjölgað frekar en fækkað, með eldgosunum. „Þetta er auðvitað mjög fallegt og spennandi, en svo er þetta meiriháttar vinna og hér eru allir í sjálfboðastarfi.“

Hann viðurkennir að einhverjir séu enn brenndir eftir fyrra eldgos, þar sem álagið hafi verið mikið og langvarandi. Þá geti orðið vandasamt að manna vaktir til eftirlits og fræðslu á gosstöðvunum.  

„Okkar sérhæfing er leit og björgun, svo þarna erum við aðeins komin út fyrir þann ramma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka