Ásta Ásgeirsdóttir, hagfræðingur hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, segir mikilvægt að fjölga fólki sem er 67 ára og eldra á vinnumarkaði.
„Fyrir almannatryggingakerfið og skattkerfið í heild skiptir máli að skattstofninn dragist ekki saman af því að mun færri séu á vinnumarkaði. Í grunninn þarf að fá fleiri 67 ára og eldri til að vera lengur á vinnumarkaði. Það verkefni er viðvarandi hjá mörgum löndum,“ segir Ásta.
Fjallað er um hlutfallslega fjölgun eldra fólks á Íslandi í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í gær.
Hlutfall einstaklinga á vinnualdri (16-66 ára) fyrir hvern einstakling á eftirlaunaaldri (67 ára og eldri) hefur lækkað úr 6,36 árið 2000 í 5,19 í byrjun þessa árs. Gert er ráð fyrir að það lækki áfram og verði komið í 4,38 árið 2030, að teknu tilliti til mannfjöldaspár Hagstofunnar. Munu þá tveimur færri vinnandi vera að baki hverjum 67 ára og eldri en árið 2000.
Má í þessu efni rifja upp að eignir lífeyrissjóðanna drógust saman um 361 milljarð á fyrri hluta ársins.
Horfur eru á að 67 ára og eldri muni fjölga úr 28.500 árið 2000 í 63.100 árið 2030.