„Við metum það sem svo að þessi sálfrænu áhrif séu mjög mikilvæg. Við verðum að byggja borg sem fólki líður vel í og þetta verður að vera góður staður til að búa,“ segir Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur, í samtali við mbl.is um umhverfið og áhrif þess á fólk í samhengi við þéttingu byggðar og áherslur í nútíma hönnun bygginga í Reykjavík.
Páll Jakob Líndal, umhverfissálfræðingur, vakti athygli á málefninu í Morgunblaðinu á mánudag. Þar kallaði Páll eftir því að litið sé til áhrifa umhverfis á heilsu og velllíðan fólks í þeirri miklu uppbyggingu sem á eftir að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu og víðar á næstu árum.
Þar skiptir máli að ekki sé byggt of þétt, græn svæði séu áberandi og að byggð sé fjölbreytt. Einnig sé mikilvægt að birtuskilyrði séu í lagi.
Sigríður Maack, formaður Arkítektafélags Íslands, tók í sama streng og Páll í samtali við mbl.is á laugardag og sagði að ógáfulegt sé að spara í undirbúningi þessa risaverkefnis sem felst í uppbyggingunni og bendir á að mannlegar þarfir sé oft vanmetnar í samanburði við kostnað.
Alexandra segir að nú sé í vinnslu að setja á laggirnar nýjan starfshóp sérfræðinga á umhverfissviði til að aðstoða við uppbyggingu í borginni.
„Við erum að vinna í því að skipa starfshóp sem mun veita leiðbeiningar um uppbyggingu í borginni svo passað sé upp á að rýmið sé manneskjuvænt og grænt, nægileg birta, koma bílaumferð fyrir og rými fyrir fótgangandi og hjólandi,“ segir Alexandra og bætir við að hún eigi von á að fá inn í skipulagsráð fljólega hverjir verða skipaðir í hópinn.
Þá vill Alexandra að hverfiskjarnar og borgargötur séu ákveðin miðsvæði og að ekki sé allt hannað í kringum bíla. „Við höfum verið að vinna á þessum nótum í hönnun nýrra hverfa, til dæmis í Skerjafirðinum og uppi á Höfða.“
Spurð út í kostnaðinn og tímann sem fer í að skipa starfshópinn og virkja þátt hans í verkefninu segir Alexandra að hann sé aðeins til bóta.
„Ég myndi segja að það ætti að flýta fyrir, sér í lagi þar sem við erum að tala um heilu hverfin. Verktakar og skipulagsaðilar vita þá hverjar væntingar eru fyrir fram og geta tekið það með inn í reikninginn. Varðandi kostnaðinn er þetta starfsfólk hvort eð er í vinnu hjá borginni svo það ætti ekki að haf áhrif þar. “