„Þetta er ekki samfélagið sem við viljum búa í“

Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78.
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78. Ljósmynd/Aðsend

Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78, segir leiðinlegt að í annað skipti á stuttum tíma sé regnbogafáni tekinn og skemmdur. Mikilvægt sé að lögreglan taki málinu alvarlega.

Regn­boga­fán­i við Hjallakirkju í Kópavogi var í nótt rif­inn niður og skemmdur. Sunna Dóra Möller, sókn­ar­prest­ur í Hjalla­kirkju, segir augljóst að um viljaverk hafi verið að ræða. Aðeins eru nokkrir dagar síðan táningar skáru á bönd níu fánastanga á Hellu, þar sem regn­boga­fán­ar voru við hún.

„Það er ótrúlega leiðinlegt að sjá svona skilaboð vegna þess að það sýnir að það þarf ekki nema einn kjána til þess að senda skilaboð sem sitja föst í mörgu fólki í viðkvæmri stöðu. Það er þess vegna sem hatursáróður og hatursglæpir eru alvarlegir. Þess vegna er mikilvægt að lögreglan taki á þessu ef þetta er farið að verða einhver bylgja. Þetta er ekki samfélagið sem við viljum búa í,“ segir Álfur í samtali við mbl.is.

Alvarlegt ef samfélagið sendir þessi skilaboð

„Skilaboðin eru að öllum líkindum að hinsegin fólk sé ekki velkomið eða hafi sig of mikið í frammi. Það er í raun alvarlegt ef samfélagið ætlar að fara að senda þau skilaboð til okkar núna,“ segir Álfur en bætir við að þó sé meirihluti ungmenna betur upplýstur um málefni hinsegin samfélagsins en oft áður. 

„Ef það er það sama þarna sem liggur að baki og á Hellu eru þetta líklega kjánar sem eiga að vita betur. En það þarf ekki marga kjána til að senda neikvæð skilaboð sem liggja þungt á samfélaginu okkar. Þess vegna eru þetta alvarlegir gjörningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka