Hjónin Eva Poleschinski og Oliver Rathschueler frá Austurríki eru vægast sagt Íslandsvinir en hingað koma þau tvisvar á ári til þess að ferðast. Þau voru nýkomin úr hálendisferð þegar blaðamaður kom auga á hjúin við gönguleiðina að gosinu í Meradölum.
Þangað voru þau komin í þeim tilgangi að mynda kjól úr smiðju Poleschinski, enda starfar hún sem fatahönnuður á meginlandinu og Rathschueler sem ljósmyndari.
„Þessi er ein af okkar uppáhaldsmyndum,“ sagði Oliver meðan hann sýndi brot af því besta úr gosinu í Geldingadölum í fyrra en þau komu hingað í tvígang meðan gaus í fyrra: í apríl og júní. Ferðin í ár er þeirra fimmtánda hingað til lands og hér eiga þau góða vini.
Hjónin voru hugfangin af síðasta gosi og var því einstök heppni að þau skyldu vera einmitt hér á landi þegar byrjaði að gjósa, hvað þá með nýjan kjól í farteskinu.
„Hann tekur myndirnar og ég hanna fötin,“ sagði Eva létt í lundu og bætti við að það hefði aldrei verið spurning hvort þau færu að sjá hið nýja gos. „Við pökkuðum og komum á stundinni.“
Eva sagði að í fyrra, meðan gaus í Geldingadölum, hafi þau verið þar nánast „allan sólarhringinn“ í þeirra rúmu tveggja vikna för. „Fyrir okkur var þetta svo mikill innblástur. Nokkuð sem við höfðum aldrei séð eða upplifað áður.“ Ísland sé henni innblástur í hönnuninni.
Hjónin verða á ferðalagi í alls sex vikur, sem hófst á akstri frá heimalandinu norður til Danmerkur, þar sem þau tóku Norrænu. Við tók lundaskoðun á Borgarfirði eystri, Grænlandsför, ganga um Hornstrandir og auðvitað ferð að eldgosinu í Meradölum.
„Við förum ekki fyrr en í lok ágúst þannig að það er nægur tími til að sjá það aftur.“
Uppáhalds mynd Olivers, sem þau tóku við eldgosið í Geldingadölum í fyrra: