Hraunflæði svipað og í gosinu í fyrra

Fyrstu gögnin frá Pleiades-gervitunglinu með myndum af Meradölum komu í …
Fyrstu gögnin frá Pleiades-gervitunglinu með myndum af Meradölum komu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hraunið úr eldgosinu þekur 1,25 ferkílómetra í Meradölum og hefur hraunflæði síðustu tíu daga verið að meðaltali 10,4 rúmmetrar á sekúndu. Er þetta svipað því sem var að meðaltali í gosinu í Geldingadölum í fyrra.

Þetta kemur fram í niðurstöðum mælinga hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, en fyrstu gögnin frá Pleiades-gervitunglinu með myndum af Meradölum bárust stofnuninni í gær. Skýjahula hefur hingað til hindrað sýn.

Þriðjungur af flæðinu sem var í upphafi

Búið er að vinna úr gögnunum og gera nýtt kort af gossvæðinu.

Jafnframt sýna mælingarnar að hraunflæði yfir tímabilið er nú um það bil þriðjungur af því sem var fyrstu klukkutíma gossins.

Þá voru loftmyndir teknar á laugardagsmorgun og sunnudagskvöld og er úrvinnsla þeirra gagna nú í gangi, en þær gætu gefið gleggri mynd af stöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert