Hraunið nægilega hátt til að flæða úr Meradölum

Hraun heldur áfram að flæða á gosstöðvunum í Meradölum.
Hraun heldur áfram að flæða á gosstöðvunum í Meradölum. mbl.is/Árni Sæberg

Ef meginjaðar hraunsins í Meradölum leggst alveg að austurhlíðinni á skarðinu sem lokar dalnum að austanverðu er hraunið nægilega hátt til þess að geta flætt beint út úr Meradölum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Háskóla Íslands. 

Á mynd sem hópurinn birti má sjá hæðarprófíla af austasta hluta Meradala og upp í gegnum nyrðra skarðið á hryggnum sem lokar dalnum að austanverðu. 

Svört lína sýnir hvernig landið var fyrir gosið 2021. Ljósblá lína sýnir yfirborð hraunsins eftir gosið 2021 og rauð lína sýnir yfirborð nýja hraunsins, eins og það var 10. ágúst. 

Á þeim tímapunkti voru múgarnir, sem hraunflæðið hafði ýtt upp og á undan sér, um einn metra fyrir neðan lægsta punktinn í skarðinu.

Apalhraunið standi hærra en lægsti punktur

Yfirborðið á helluhrauninu þar fyrir aftan er 2 til 3 metrum lægra en hæstu múgarnir. Þar fyrir aftan og um 25 metrum innar var virkur jaðarinn á apalhraunsálmunni, sem þá stóð í 140 metrum yfir sjávarmáli. Á þessum tímapunkti var meðalþykkt nýja hraunsins 7 til 8 metrar.

Athygli er vakin á því að þetta apalhraun stendur mun hærra en lágpunktur skarðsins eða sem nemur allt að 5 metrum. 
Hæðarprófíll 2021 hraunsins við austurhlíðar Meradala var óbreyttur fram að 7. ágúst 2022, þannig að breytingarnar sem rauða línan gefur í skyn áttu sér stað á innan við þremur dögum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert