Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út eftir að stuðningsmaður ensks knattspyrnuliðs missti stjórn á skapi sínu, þegar lið hans fékk háðuglega útreið á laugardag.
Frá þessu greinir lögreglan á Facebook, en leiða má líkur að því að um sé að ræða stuðningsmann Manchester United, sem lenti 4:0 undir á móti liði Brentford eftir aðeins 35 mínútna leik, en þetta urðu einnig úrslit leiksins.
„Maðurinn var að horfa á leikinn í sjónvarpi og reiddist mjög, með tilheyrandi hljóðum, þegar fór að síga á ógæfuhliðina og mörkunum rigndi í vitlaust mark. Við þetta hringdu nágrannar stuðningsmannsins í lögreglu enda óttuðust þeir hið versta,“ segir í færslu lögreglunnar.
„Þegar hún kom á staðinn hafði ástandið róast og er vonandi að maðurinn nái að halda stillingu sinni næst þegar illa gengur hjá hans mönnum á fótboltavellinum.“