Fjórir duglegir krakkar söfnuðu 130 þúsund krónum sem þau gáfu Rauða krossinum til styrktar flóttafólki frá Úkraínu.
Börnin, sem heita Sigrún, Andri, Emma og Karen, búa í Ennishvarfi í Kópavogi en þau náðu að safna þessari óvenju háu upphæð með því að vera sérlega dugleg og úrræðagóð, að því er segir í tilkynningu Rauða krossins.
Byrjuðu þau á því að fá posa lánaðan hjá Saltpay svo fólk gæti borgað þeim með korti og svo héldu þau tvær sirkussýningar sem þau seldu inn á og seldu meira að segja veitingar í hléi.
Þá bjuggu krakkarnir til armbönd og notuðu posann til þess að selja þau nálægt heimilum sínum, auk þess að ganga um hverfið sitt og selja miða í happdrætti en síðast en ekki síst söfnuðu þau tómum drykkjarumbúðum í hverfinu sínu sem þau fóru með í Sorpu.
Fólk sem hefur áhuga á að taka þessa kláru krakka til fyrirmyndar geta stutt hjálparstarf Rauða krossins á ýmsa vegu í gegnum heimasíðu Rauða krossins.