Logi Sigurðarson
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, kallar eftir því að ríkið haldi sig utan kjaraviðræðna þar til á lokametrum þeirra.
„Mín skoðun hefur verið, ekki bara núna heldur um árabil, að ríkið eigi að halda sig til hlés þar til kjaraviðræður eru komnar á lokametrana. Þá á ríkið að koma inn með fáar og markvissar aðgerðir sem eru til þess fallnar að loka kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Það getur ekki verið þannig að viðræður aðila á almennum vinnumarkaði geti ekki hafist vegna þess að ríkið sé að boða einhverjar aðgerðir og/eða vinnuhópa meðan kjarasamningsviðræður eiga að fara fram,“ segir Halldór í samtali við Morgunblaðið.
Halldór tekur fram að aðkoma ríkisins á síðustu 30 árum hafi farið stigvaxandi og hafi sennilega náð hámarki við gerð lífskjarasamninganna.
„Þar lagði ríkið fram lista af tugum atriða sem mundu koma til framkvæmda eða skoðunar á kjarasamningstímabilinu. Það sýnir að þetta er vandmeðfarið. Þess vegna tel ég að það sé lykilatriði að aðilar vinnumarkaðarins fái að ganga frá kjarasamningi án þess að ríkið stígi um of inn í þá aðgerð.“
Halldór segir að væringar innan verkalýðshreyfingarinnar styrki hvorki stöðu ASÍ né viðsemjenda þeirra.
Meira í Morgunblaðinu.