Maður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir stuld á 34 farsímum, tölvu og heyrnartólum, úlpu og greiðslukorti, á 10 daga tímabili. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvar maðurinn heldur til, en fyrirtaka fer fram í máli hans þann 5. október í héraðsdómi Reykjavíkur.
Maðurinn er ákærður í 11 liðum, auk þess sem einn brotaþola hefur gert einkaréttarköfu til þess að fá tjón sitt bætt. Er það 15 ára stúlka, en maðurinn er ákærður fyrir að hafa stolið greiðslukorti hennar og tekið út 10 þúsund krónur í tvígang.
Þann 3. desember á síðasta ári, á maðurinn að hafa farið inn í búningsklefa í Skautahöllinni í Reykjavík og stolið þaðan tveimur farsímum af gerðinni Samsung Galaxy A20 og Samsung Galaxy A70.
Tveimur dögum seinna er hann ákærður fyrir að hafa farið inn í búningsklefa í Breiðablik og stolið tveimur símum af gerðinni Apple iPhone.
Þá hafi hann farið inn í búningsklefa í íþróttamiðstöðinni Ásgarði í Garðabæ, þann 6. desember, og stolið þaðan tveimur farsímum af gerðinni Apple iPhone, einum af gerðinni Samsung S20, heyrnatólum af gerðinni Apple airpods og reiðufé að fjárhæð 4.958.
Búningsklefi í íþróttamiðstöð Þróttar virðist hafa orðið fyrir valinu næsta dag, en þaðan er maðurinn ákærður fyrir að hafa stolið farsíma af gerðinni Apple iPhone X og farsíma af gerðinni Samsung A5.
Seinna þann sama dag er maðurinn sakaður um að hafa stolið tveimur farsímum af gerðinni Samsung Galaxy A51, úr Dalaskóla í Reykjavík.
Úr Laugardalshöll er hann ákærður fyrir að hafa stolið níu farsímum af gerðinni Apple iPhone og farsíma af gerðinni Samsung S, þann 8. desember.
Á ný er hann sakaður um að hafa farið inn í búningsklega í Skautahöllinni að Múlavegi í Reykjavík og stolið þaðan farsíma af gerðinni Samsung Galaxy A02, þann 9. desember.
Sama dag hafi hann stolið átta farsímum og tveimur greiðslukortum í eigu tveggja fjórtán ára stúlkna, úr búningsklefa í Gróttu, íþróttamiðstöð á Seltjarnarnesi.
Loks er hann ákærður fyrir að hafa stolið þremur farsímum af gerðinni Apple iPhone, einum farsíma af gerðinni Samsung Galaxy s10e, fartölvu af gerðinni MacBook Pro og úlpu af gerðinni Moncler. Átti þetta sér stað þann 13. desember.
Í byrjun febrúar á þessu ári var maðurinn stöðvaður vegna aksturs án ökuréttinda og án öryggisbeltis.