Neytendasamtökin hyggjast láta gera allsherjar úttekt á tryggingum á Íslandi og lagaumhverfi þeirra.
Breki Karlsson, formaður samtakanna, segir í samtali við Fréttablaðið, að borið verði saman lagaumhverfi hér á landi og annars staðar. Þar að auki verði kannað hvort verðmunurinn stafi af því að íslensk lög setji þyngri byrði á tryggingafélög vegna bóta, en lög annarra landa.
Ábyrgðar og kaskótrygging er um fimmfalt dýrari hér á landi en í Svíþjóð og Bretlandi, að því er fram kemur í grein blaðsins.
Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri trygginga hjá TM, segir þennan mikla verðmun koma sér á óvart, en bótakerfið í þessum löndum sé mjög frábrugðið íslensku bótakerfi.
Haft er eftir Runólfi Ólafssyni, framkvæmdastjóra FÍB, að óeðlilega há iðgjöld hér á landi stafi af fákeppni. Þá telur hann Seðlabanka Íslands bregðast skyldu sinni til eftirlits með starfsemi og verðskrá tryggingafélaganna.
Áætlað er að úttektin kosti Neytendasamtökin á bilinu 12 til 15 milljónir króna, en vonir eru bundnar við að það fjármagn fáist frá ríkinu og verkalýðsfélögum.