Umhverfisstofnun hefur borist fjölmargar umsóknir um stöðu landvarðar við gosstöðvarnar í Meradölum. Leitað er að sex einstaklingum í fullt starf til áramóta með möguleika á framlengingu ef þörf verður á.
Starfsauglýsingin birtist á heimasíðu Umhverfisstofnunar í gær en umsóknarfrestur rennur út 23. ágúst.
Ásta Davíðsdóttir, yfirlandvörður á Suðvesturlandi, segir í samtali við mbl.is fjölda umsókna ekki koma á óvart miðað við fyrri reynslu, en í fyrra voru einnig ráðnir landverðir til að standa vaktina við eldgosið í Geldingardölum.
Helstu verkefni landvarðanna verður að gæta þess að ákvæðum náttúruverndarlaga sé fylgt, veita gestum upplýsingar og hafa eftirlit með akstri utan vega á svæðinu. Munu þeir því að einhverju leyti koma til með að létta undir með björgunarsveitum.