Gosstöðvarnar í Meradölum hafa verið opnar í dag en þeim verður lokað í nótt klukkan 4 vegna slæmrar veðurspár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Gul veðurviðvörun er í gildi frá klukkan 6 í fyrramálið á Suðurlandi og frá klukkan 7 fyrir Faxaflóa og Miðhálendið. Viðvörunin gildir fram yfir hádegi, en ekki hefur verið gefið út hvenær gosstöðvarnar muni opna aftur.
Á vef Veðurstofu Íslands segir að búast megi við hvassviðri eða stormi og talsverði rigningu. Þá verði ekkert útivistarveður á meðan veðrið gangi yfir.