Umboðsmaður Alþingis komst að því í gær að heilbrigðisráðuneytið hafi ekki farið að lögum, þegar konu var meinað að kvarta til landlæknis vegna vottorðs sem hann gaf út um heilbrigði hennar, þegar svipta átti hana lögræði.
Landlæknir taldi að kvörtunin lyti ekki að veitingu heilbrigðisþjónustu og konan gæti því ekki kvartað yfir vottorðinu til embættisins en heilbrigðisráðuneytið staðfesti afstöðu landlæknis og vísaði stjórnsýslukæru hennar því frá. Kvartaði konan því næst til umboðsmanns Alþingis.
Sú sem kvartaði til umboðsmanns lést á meðan málið var til meðferðar en með hliðsjón af almennri þýðingu málsins ákvað umboðsmaður að ljúka athugun sinni með áliti.
Deilt var um kröfu ættingja að svipta konuna lögræði en við meðferð dómsmálsins gaf læknir út vottorð um heilsufar hennar. Kvartaði hún yfir vottorðinu til landlæknis á þeim grunni að læknirinn hefði gert mistök við útgáfu vottorðsins.