Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hyggst fylgja eftir hugmyndafræði sinni um ráðuneyti óháð staðsetningu og starfa um land allt.
Áslaug Arna mun færa skrifstofu sína staka í fjarvinnuaðstöðu um land allt á kjörtímabilinu og hefst handa með fyrirkomulagið á fimmtudaginn með því að starfa frá Snæfellsbæ.
„Hugmyndin kviknaði þegar ég íhugaði hvernig ráðuneyti sem væri búið til árið 2022 myndi starfa. Ráðuneytið sjálft er samkvæmt lögum staðsett í Reykjavík, en mig langar til að skrifstofa mín geti verið víðar um land,“ segir Áslaug Arna í samtali við Morgunblaðið.
Fyrir liggur áætlun um starfsdaga í nokkrum plássum í ár en til stendur að fyrirkomulagið haldi sér allt kjörtímabilið og að stöðum fjölgi á hverju ári þar sem ráðherra mun starfa. Þó segir Áslaug Arna að dagarnir geti hliðrast til eftir skyldum í Reykjavík – líkt og gagnvart Alþingi.
„Mér finnst þetta vera ein leið til að sýna fram á að ráðuneyti þurfi ekki að vera eins og þau hafa alltaf verið,“ segir hún.
„Ég hef haldið reglulega opna viðtalstíma í Grósku í Reykjavík en mun nú líka halda opna viðtalstíma á þeim stöðum þar sem skrifstofa mín verður hverju sinni,“ segir hún.
Áslaug bætir við að auk þess muni hún sinna hefðbundnum ráðherrastörfum í fjarvinnu þar sem hún er stödd á hverri stundu, svo sem að taka fjarfundi við starfsfólk sem kann að starfa í Reykjavík.
Meira í Morgunblaðinu.