Aðallega ferðamenn sem ætluðu að gosinu

Gosstöðvarnar í Meradölum eru lokaðar vegna veðurs.
Gosstöðvarnar í Meradölum eru lokaðar vegna veðurs. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það var slatti af umferð á Suðurstrandarveginum í dag, en ég held að enginn hafi þó labbað upp eftir, ég held að þetta hafi aðallega verið ferðamenn sem ætluðu að labba.“

Þetta segir Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar, björgunarsveitarinnar í Grindavík, í samtali við mbl.is. Rólegt hafi verið hjá björgunarsveitum við gosstöðvarnar í Meradölum í dag.

Gosstöðvarnar hafa verið lokaðar í dag og verða það áfram til morguns, en veðurútlit fyrir svæðið er ekki gott.

Lögregla með eftirlit við Suðurstrandarveg

„Sjálfsagt margir sem ætluðu að labba í dag, en lögreglan er með eftirlit við Suðurstrandarveg, þeir sem ætluðu á Selfoss fengu að fara áfram og þeir sem komu úr hinni áttinni, á leið í Bláa lónið eða Grindavík, fengu að fara yfir. Lögreglan var með bíl sitt hvorum megin og einn í miðjunni,“ segir Bogi.

Hann segir að vel hafi gengið að vakta svæðið í dag, en bendir á að dagurinn sé ekki búinn.

Góður andi sé í björgunarsveitarmönnum og undanfarna daga hafi gengið ágætlega.

„Það er alltaf eitthvað af slysum, en þetta hefst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert