Daglega koma nokkrir frá gosstöðvunum á bráðamóttöku

Hjalti segir það hafa verið viðbúið að álag myndi aukast …
Hjalti segir það hafa verið viðbúið að álag myndi aukast vegna gönguferða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Daglega koma á bráðamóttökuna nokkrir einstaklingar sem slasast hafa á göngu að eldgosinu í Meradölum. Þetta staðfestir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans, í samtali við mbl.is.

Hann segir það hafa verið viðbúið að álag myndi aukast á bráðamóttökunni vegna ferða fólks að gosinu.

„Það fylgir því svolítið þegar tugþúsundir manna fara í göngu í óbyggðum. Það hefur verið nokkuð um að fólk hafi hrasað aðallega og hlotið áverka við það,“ segir Hjalti. Þó er ekki haldin nákvæm skráning á þessum tilfellum.

Mörgum hefur skrikað fótur á göngu að gosinu og þurft …
Mörgum hefur skrikað fótur á göngu að gosinu og þurft að leita á bráðamóttöku í kjölfarið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn hópur meira áberandi en annar

Um er að ræða fólk á öllum aldri, bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn. Enginn hópur er meira áberandi en annar þegar kemur að slysum sem verða á göngu að gosinu. „Það eru allir nokkuð jafnir þegar kemur að því að missa jafnvægið eða skrika fótur á göngu,“ segir Hjalti. 

Í langflestum tilfellum er að um að ræða sár eða tognanir og beinbrot, að sögn Hjalta. Ökklabrot eða handleggsbrot. Yfirleitt er ekki um alvarleg meiðsli að ræða.

„Það er talsvert um að óvant fólk sé að fara í göngur en það er mikilvægt að allir sem fara í svona séu vel skóaðir og vel útbúnir. Fari varlega og séu í fylgd einhverra sem eru vanir útivist ef fólk er ekki vant slíku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert