Gul viðvörun tekur í dag gildi á Suðurlandi, við Faxaflóa og á miðhálendinu. Þar er því ekkert útivistarveður, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Snarpar hviður á Suðurlandi
mblSnarpar hviður á Suðurlandi
Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 7 í dag og varir til klukkan 14. Búast má við að vindur nái 15 til 23 metrum á sekúndu.
Við fjöll kann að gera snarpar vindhviður sem staðbundið kunna að ná 30 metrum á sekúndu.
Við Faxaflóa er gert ráð fyrir suðaustan hvassviðri, 13 til 20 metra á sekúndu. Einnig verða þar snarpar vindhviður við fjöll sem gætu náð 25 metrum á sekúndu, einkum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.
Varasamt er að ferðast þar í ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Viðvörunin tekur gildi klukkan 8 og varir til klukkan 14 í dag.
Búast má við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll á miðhálendinu en þar eru aðstæður jafnvel hættulegar fyrir ferðamenn og útivistarfólk.
Þá kann vindhraði staðbundið að fara yfir 35 metra á sekúndu. Hvassast verður í hviðum norðvestan jökla. Viðvörunin verður í gildi frá klukkan 7 til klukkan 17 í kvöld.