„Ég myndi segja að alla vega helmingurinn af okkar ræktun hafi skemmst að einhverju leyti en þó ekki að fullu,“ segir Jón Helgi Helgason, kartöflubóndi á Þórustöðum, sunnan við Akureyri, um áhrif næturfrosts á kartöfluuppskeruna.
Greint var frá því snemma í gærmorgun að jörð hefði frosið víða um land í fyrrinótt, en hiti við jörðu mældist lægst -3,4 gráður.
Næturfrostið veldur því að akrarnir verða kolsvartir og uppskeran þornar upp. Ágúst er aðaluppsprettutíminn og sagði Markús Ársælsson, kartöflubóndi í Þykkvabæ, í gær að um væri að ræða töluvert mikið tekjutap fyrir bændur.
„Það er auðvitað ógerlegt að sjá fyrir núna hversu miklar skemmdirnar eru, þó að grösin séu mörg hver fallin,“ segir Jón og bætir við að áhrif skemmdana komi betur í ljós á næstu tveim vikum.
Jón segir vissulega tekjutap af skemmdunum. Hann tekur líka fram að horfurnar hafi ekki verið bjartar fyrir vegna veðurfars undanfarið en mikill kuldi veldur því að vöxturinn verður hægur.
„Kartöflurnar voru þá ekki komnar í þá stærð sem þær hefðu þurft að vera komnar í áður en það kæmi frost,“ segir Jón að endingu.