íbúar á Ísafirði hafa kvartað mikið undan kríuvarpi sem stendur fyrir framan leikvöll í Tunguhverfinu. Kríum hefur fjölgað ört á svæðinu síðastliðin fjögur ár.
„Þetta er ekki bjóðandi þeim sem búa á svæðinu. Þetta er orðið svo slæmt að kríurnar eru farnar að ráðast á fólk fyrir framan húsin sín“, segir Einar Birkir Sveinbjörnsson, íbúi við Ártungu á Ísafirði.
Hann sendi erindi til bæjarráðs ásamt eiginkonu sinni, Ingibjörgu Elínu Magnúsdóttur, um kríuvarpið og leikvöllinn sem hefur fengið lítið viðhald undanfarin ár.
„Við viljum bara að eitthvað sé gert til þess að krían fari burt þegar hún leggur leið sína hingað aftur næsta vor.“
Hann segist hafa rætt þetta við fyrri bæjarstjórn en ákveðið viljaleysi hafi hindrað framkvæmd í málinu.
„Það er sagt við mann að við þurfum bara að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna en krían var ekki þarna þegar við komum og það þarf bara að fæla hana burt.“ Einar segir enn fremur að mikill samhljómur sé í hverfinu um það að íbúar vilji ekki búa með kríunni næsta sumar og segist hann vonast til þess að ný bæjarstjórn taki á málinu af fullri alvöru.
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segist skilja áhyggjur íbúa þar sem kríu hefur fjölgað hratt á svæðinu. Hún segir að það sé flókið að fæla fuglinn burt þar sem krían er friðuð og því þurfi hún að færa sig sjálf.
Erindið var tekið upp á fundi bæjarráðs á mánudag og var bæjarstjóra falið að leita lausna.
„Krían vill vera í nánd við manninn þar sem það er ákveðið öryggi í því. Þá stafar henni minni hætta af minkum og öðrum óvinum fuglsins, en það er erfitt að búa í miklu návígi við kríuvarp.“
Arna segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um hvernig sé hægt að færa varpið en á bæjarráðsfundinum hafi verið rætt um náttúrulegar aðferðir til að fá fuglinn til að halda sig aðeins utar í firðinum en ekki beint fyrir framan leikvöllinn.
„Þetta er flókið mál, en við skiljum bæjarbúa fullvel og við ætlum að reyna að finna lausn.“