Á myndinni hér að neðan, sem náðist í grennd við gosstöðvarnar í Meradölum, má sjá glitta í glóandi hraunbráð undir storknuðu hrauni.
Ljósmyndarinn, Thomas Sechet, deildi myndinni á Facebook og af athugasemdum við færslu hans má sjá að marga hryllir við tilhugsuninni um að ganga ofan á hrauninu, óafvitandi um hættuna sem leynist undir niðri.
Sjálfur bendir hann á þessa hættu og nefnir myndina af því tilefni „Augu djöfulsins“.
Ítrekað hefur verið fyrir fólki sem ætlar sér að gosstöðvunum að ganga ekki á gamla hrauninu, enda getur það endað illa.
Í gær greindi mbl.is frá því að bráð frá eldgosinu í Geldingadölum sé farin að kreistast út úr eldra hrauninu, undan þunga nýja hraunsins sem lagst hefur ofan á það.
Vísindamenn hafa sagt það stórvarasamt að vera á gamla hrauninu, þar sem bráðin komi út af miklum krafti þegar gamla hraunið brestur.