Reykurinn sem kemur upp frá gosinu og dreifist þar í kring er að mestu leyti gas, að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Mynd sem tekin var í gær, þriðjudag, sýnir reyk koma upp frá gosinu í Meradölum.
„Í austanverðum Meradalahnjúkum er áhugaverður reykur eða gufa sem líklegast er gas eða heitt loft að finna sér farveg upp með hlíðinni.
Nú er aðeins byrjað að rökkva á svæðinu og sjáum við ekki glóð þarna í fjallinu en við myndum sjá strax glóð þarna ef eitthvað væri að breytast,“ segir Einar.
Hann segir að virknin í gosinu sé svipuð og hún hefur verið undanfarna daga.
„Við fylgjumst með vefmyndavélum og erum að fylgjast með hvort hraunið fari í austur. Við erum með vefmyndavélar suðaustan við hraunið og fylgjumst með hvort það nái að renna í gegnum skarð sem er þar og erum mest að vakta það núna.“
Þá sé vel fylgst með gosóróanum, en ekki hefur orðið fall í honum að sögn Einars.