Runólfur óttast að spítalinn fari í þrot

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, segir að staðan á sjúkrahúsinu hafi aldrei verið jafn þung og í sumar. Mannekla sé mikil og ef það verði ekki brugðist við sem fyrst fari spítalinn í þrot. 

Þetta sagði Runólfur í samtali við Rúv. 

Runólfur tekur fram að álagið hafi verið sérstaklega mikið á bráðamóttöku spítalans. Hann tekur fram að manneklan tengist m.a. því að starfsfólk hafi orðið að komast í frí en vegna Covid-faraldursins hafi verið mjög takmarkað að gefa starfsmönnum kost á því að komast í sumarfrí. 

Runólfur tekur einnig fram í samtali við Rúv að staðan sé alvarleg og að helsta áskorunin í heilbrigðisþjónustu að tryggja nægt starfsfólk til að sinna vaxandi auknum verkefnum á komandi árum. Sömuleiðis verði að mennt fleiri og tryggja að fólk haldist í starfi. 

Nýverið greindi mbl.is frá því að veik­inda­hlut­fall starfs­fólks Land­spít­ala hafi hækkað gíf­ur­lega á fyrstu þrem­ur mánuðum árs­ins þar sem það mæld­ist 11,8%. Það hafði verið stöðugt í um 6,5% frá ár­inu 2007 en fór að hækka upp úr 2015. Þá fer at­vik­um sjúk­linga og starfs­fólks fjölg­andi og starfs­manna­velta lækna, hjúkr­un­ar­fræðinga og sjúkra­liða eykst stöðugt.

Þá sagði Björn Zoëga, nýskipaður stjórnarformaður Landspítalans, í þættinum Dagmál á mbl.is, að þær áskor­an­ir sem spít­al­inn standi frammi fyr­ir séu þær sömu og sjúkra­hús um all­an heim glími við. Hann tel­ur rétt að færa áhersl­urn­ar nú meira á klíník­ina og fækka fund­um. Hann sagði ennfremur að breytt ald­urs­sam­setn­ing þjóða kall­ar á nýj­ar leiðir til að tak­ast á við vax­andi fjölda aldraðra.

Ekki náðist í Runólf við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert