Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, segir að staðan á sjúkrahúsinu hafi aldrei verið jafn þung og í sumar. Mannekla sé mikil og ef það verði ekki brugðist við sem fyrst fari spítalinn í þrot.
Þetta sagði Runólfur í samtali við Rúv.
Runólfur tekur fram að álagið hafi verið sérstaklega mikið á bráðamóttöku spítalans. Hann tekur fram að manneklan tengist m.a. því að starfsfólk hafi orðið að komast í frí en vegna Covid-faraldursins hafi verið mjög takmarkað að gefa starfsmönnum kost á því að komast í sumarfrí.
Runólfur tekur einnig fram í samtali við Rúv að staðan sé alvarleg og að helsta áskorunin í heilbrigðisþjónustu að tryggja nægt starfsfólk til að sinna vaxandi auknum verkefnum á komandi árum. Sömuleiðis verði að mennt fleiri og tryggja að fólk haldist í starfi.
Nýverið greindi mbl.is frá því að veikindahlutfall starfsfólks Landspítala hafi hækkað gífurlega á fyrstu þremur mánuðum ársins þar sem það mældist 11,8%. Það hafði verið stöðugt í um 6,5% frá árinu 2007 en fór að hækka upp úr 2015. Þá fer atvikum sjúklinga og starfsfólks fjölgandi og starfsmannavelta lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eykst stöðugt.
Þá sagði Björn Zoëga, nýskipaður stjórnarformaður Landspítalans, í þættinum Dagmál á mbl.is, að þær áskoranir sem spítalinn standi frammi fyrir séu þær sömu og sjúkrahús um allan heim glími við. Hann telur rétt að færa áherslurnar nú meira á klíníkina og fækka fundum. Hann sagði ennfremur að breytt aldurssamsetning þjóða kallar á nýjar leiðir til að takast á við vaxandi fjölda aldraðra.
Ekki náðist í Runólf við vinnslu fréttarinnar.