UNICEF-akademían opin öllum gjaldfrjálst

F.v. Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forseti Akademías, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri …
F.v. Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forseti Akademías, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Hjördís Freyja Kjartansdóttir, meðlimur ungmennaráðs UNICEF á Íslandi og Sigyn Blöndal, Hanna Borg Jónsdóttir, Pétur Hjörvar Þorkelsson og Eva Bjarnadóttir, sérfræðingar í innanlandsteymi UNICEF á Íslandi. Ljósmynd/UNICEF

Í hádeginu í dag opnaði UNICEF á Íslandi rafræna fræðsluvettvanginn UNICEF-akademíuna sem er opin öllum gjaldfrjálst.

Akademían býður upp á fræðslumyndbönd og námskeið fyrir börn og fullorðna, ásamt réttindafræðsluefni fyrir skóla.

 „Við höfum einbeitt okkur að réttindafræðslu undanfarin ár með það að markmiði að byggja upp þekkingu á Barnasáttmálanum, jafnt meðal barna og innan stjórnkerfisins, og stuðla þannig að betri ákvörðunatöku þegar kemur að málefnum barna. Þekking er grunnurinn að öllum framförum og lykillinn að árangri í réttindabaráttu,“ er haft eftir Evu Bjarnadóttur, teymisstjóra innanlandsteymis UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

Rafræn fræðsla tryggi jafnt aðgengi um land allt

Undanfarin ár hefur UNICEF á Íslandi frætt mikinn fjölda barna og starfsfólks sveitarfélaga í gegnum ýmis verkefni sem unnin eru um allt land og mun rafrænn fræðsluvettvangur tryggja jafnt aðgengi barna og fullorðinna að fræðslu sem byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  

Sérstakur gestur á opnun UNICEF-akademíunnar var Marie Wernham, sérfræðingur hjá UNICEF í réttindafræðslu, sem brýndi fyrir gestum opnunarinnar hversu mikilvægt það er að allir læri um réttindi barna.

„Við verðum að vinna saman"

Þá fjallaði Hjördís Freyja Kjartansdóttir, sem situr í ungmennaráði UNICEF, um mikilvægi þess að sýna börnum þá virðingu sem þau eiga skilið, gefa börnum rödd og að hlusta á hugmyndir þeirra og skoðanir.

Það er svo ótrúlega mikilvægt að þið, fullorðna fólkið, hlustið á okkur og takið þeirri fræðslu sem þið fáið alvarlega og með opnum augum. Við hjá UNICEF sjáum börn sem unga borgara og réttindahafa nútímans sem eru hæf í að taka ákvarðanir í málefnum sem tengjast þeim. [...] Við verðum að vinna saman, bera virðingu fyrir hvort öðru og efla framtíðina,“ sagði Hjördís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert