Talsmaður Strætó segir að notendur Klapp-appsins eigi að njóta vafans ef netsamband í strætisvögnum reynist ekki fullnægjandi.
Á heimasíðu Strætó segir að þráðlaust net eigi að vera í öllum strætisvögnum en dæmi eru um það að netið reynist hægvirkt eða hreinlega virki alls ekki í símum notenda.
Guðmundur Heiðar Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Strætó, segir netið virka misvel en mælir með að fólk noti farsímanetið, ef hægt er, þegar miðinn er virkjaður.
„Stundum er álag og allir í vagninum að deila þráðlausa netinu svo það gengur mishratt. Við mælum með að vera með kveikt á 4G þegar þú virkjar miðann en prófa svo að tengjast netinu í vagninum þegar þú hefur fengið þér sæti.“
Guðmundur bendir á að komi fram í skilmálum Klappsins að þeir sem ætli að nota appið beri sjálfir ábyrgð á því að vera með nettengingu.
Guðmundur segir það gerast við og við að ekkert netsamband finnst í vagninum, en það gerðist einmitt í vagni á leið 5 á dögunum. Þá var um tæknivandamál að ræða. Spurður hvernig farþegar eigi að snúa sér í því, þegar ekkert netsamband finnst, segir tæknimaður hjá Strætó að bílstjórar eigi að leyfa farþegum að njóta vafans.
„Bílstjórar eiga að leyfa farþegum með Klappið, og annað, að njóta vafans og eiga ekki að henda fólki út. Þá geta farþegar sagt bílstjóranum að þeir nái ekki netsambandi. Við höfum verið nokkuð frjálslynd með það, síðan Klappið kom, að leyfa farþegum að njóta vafans,“ segir hann.
Þá er hægt að kaupa inneignarkort, Klappkortið, á þúsund krónur og fylla svo á það ef fólk vill ekki nota símann. „Ég mæli með að vera með kortið ef ske kynni að fólk vilji ekki nota gagnamagnið eða ef síminn verður batteríslaus,“ segir Guðmundur.
Upplýsingar um hvar er hægt að kaupa kortið er að finna á vefsíðu straeto.is.