„Það þarf að fjármagna þennan spítala svo miklu betur“

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir félagsmenn taka undir orð Runólfs Pálssonar, forstjóra Landspítalans um að ekki sé hægt að reka spítalann áfram með sambærilegum hætti og gert hefur verið.

Enn fremur segir hún að ákveðið fyrirhyggjuleysi hafi orðið til þess að kerfi spítalans höndli ekki vaxandi álag. 

„Ég held að það liggi algjörlega í augum uppi að það þurfi að fjármagna þennan spítala svo miklu betur, en þetta er margþættur vandi sem spítalinn glímir við."

Erfitt að fá lækna til landsins aftur

Steinunn segir að mannekla á spítalanum skýrist annars vegar af því að læknanemar séu of fáir hér á landi og hins vegar af því að spítalinn bjóði hvorki þau kjör sem sérfræðilæknar geti sætt sig við né nógu gott starfsumhverfi. 

60 pláss eru í læknadeild hérlendis, en flestir læknar sem útskrifast hérlendis fara í sérnám í útlöndum og hefur verið erfitt að fá það fólk til að starfa hér á landi. 

„Þetta snýst ekki bara um peninga, heldur álag sem við finnum fyrir alls staðar þar sem læknar starfa. Allir starfsmöguleikar hérlendis bjóða upp á eitthvað svipað og þess vegna leita læknar út fyrir landsteinana."

Hún segir að það þurfi að fjölga í læknadeild hérlendis og vill fá í það minnsta 90 nemendur á ári til að standa undir þeirri eftirspurn sem er eftir starfskröftum í framtíðinni. 

„Ógnvekjandi að ganga inn í þetta starfsumhverfi“

Landspítalinn hefur glímt við manneklu árum saman og að sögn Steinunnar hafa læknar og hjúkrunarfræðingar oft þurft að vinna frameftir til þess halda spítalanum gangandi. Yfirvinna sé þó oft ekki greidd. 

„Þetta er ógnvekjandi ákvörðun, að ganga inn í þetta starfsumhverfi, þar sem læknar fá ekki greitt í samræmi við kjarasamninga. Það þarf að gera spítalann að aðlaðandi stað til að vinna á.“

Vísindastarf látið víkja

Eitt helsta vandamál á Landspítalanum að mati Steinunnar er það hversu lítið fjármagn er lagt í vísindastarf á spítalanum.

Fjármunir í vísindastörf hafa um nokkurt skeið verið undir 1% af fjármagni spítalans. Í sambærilegum nágrannaþjóðum Íslands fer alla jafna um 3-5% fjármuna í vísindastörf. 

„Ef við ætlum að draga lækna heim aftur, sem eru vel menntaðir og virkir í vísindastörfum, þá er það ekki hægt ef engir fjármunir eru lagðir í það þar sem það gefur tækifæri til starfsþróunar.“

Breyta þurfi forgangsröðun í bráð

Fjármagn hafi að mestu leyti farið í daglegan rekstur spítalans vegna forgangsröðunar, þar sem mikil neyð hefur verið þar síðastliðin þrjú ár. 

Þó segir Steinunn að sú forgangsröðun gangi ekki til framtíðar. Íslenskt heilbrigðiskerfi hafi lengi verið fjársvelt, sem birtist víða, ekki hvað síst í þjónustu við aldraða sem fer hratt fjölgandi. 

„Það hefur verið ákveðið fyrirhyggjuleysi gagnvart vandamálum sem hafa blasað við okkur lengi og það er okkur til skammar að ekki hafi verið brugðist við þeim fyrr."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert