Ítalskur ferðamaður sektaður fyrir utanvegaakstursspjöll

Ljósmynd/Lögreglan á Húsavík

Ítalskur ferðamaður úr þriggja manna hópi hefur verið sektaður fyrir utanvegaakstur sem olli stórum ummerkjum hjá Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga, en tilkynnt var um ummerkin á mánudagskvöld.

Sektin er á bilinu 50.000-500.000 krónur. Fleiri ummerki eftir utanvegaakstur eru á svæði rétt fyrir innan Möðrudal en þau tengjast ekki sama hópi að sögn Hreiðars Hreiðarssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar á Húsavík.

Hreiðar segir að lögreglan hafi verið á svæðinu og tók ekki nema nokkra klukkutíma að finna sökudólgana. Um er að ræða þrjá ítalska ferðamenn í þremur bílum. Gengust þeir við spjöllunum en aðeins einn var sektaður.

„Lögreglan hér á Norðurlandi Eystra er með eftirlit á þessu svæði yfir sumarið. Við skipuleggjum sjö túra í júlí og ágúst, fjögurra nátta túra, og það er bíll frá okkur á svæðinu þessa viku,“ segir Hreiðar í samtali við mbl.is

Máli lokið á þriðjudagsmorgni

„Það var sjálfkrafa búið að þrengja tímarammann,“ segir Hreiðar um rannsóknina á málinu „Það tók nú ekki nema einn eða tvo tíma að bera saman hjólför, dekk og annað og komast að því að gerandinn væri úr þriggja bíla hóp og hefði verið staðsettur í Möðrudal um nóttina.“

„Haft var samband við þann grunaða og hann sættist á að bíða þar til um morguninn þar til lögreglan væri búin að hafa tal af honum og vinna sína heimavinnu og málinu var í raun lokið á þriðjudagsmorgninum með greiðslu sektar,“ útskýrir Hreiðar.

„Þeir vildu bara fá útrás“

Spurður hvað lá að baki utanvegaakstrinum segir Hreiðar að mennirnir hafi einfaldlega haft einhverja skemmtanaþörf og viljað fá útrás. „Þetta er auðvitað algjört hugsunarleysi, menn spennast upp og spóla allt í hringi. Það er nú það versta við þetta,“ segir Hreiðar og bætir við að mikilvægt sé að grípa inn í strax og því gott að lögregla vakti svæðið.

„Sums staðar eru svartir sandar en sums staðar er þessi sérstaki svarti öskusandur með drapplitaða vikrinum í bland. Þetta er mjög einstök og flott náttúrusmíði og gríðarlega freistandi.“

Förin hvatning til annarra

Hreiðar segir þá mjög vont að hafa þessi för í náttúrunni og bendir á að þau séu í raun hvatning til annarra að vinna sams konar spjöll. 

„Það ríður á að laga þetta eins fljótt og unnt er því að um leið og eru komin svona áttuspól eða kleinuhringir, þá er það hvatning til annarra að spretta úr spori og spóla í hringi.“

Þá segir Hreiðar að starfsfólk við Vatnajökulsþjóðgarð geri það sem það geti til að lagfæra og fyrirbyggja með yfirklóri og steinatínslu svo ekki sé eins freistandi að keyra út í sandinn.

Förin við Upptyppinga.
Förin við Upptyppinga. Ljósmynd/Lögreglan á Húsavík.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka