Vígja nýja leikskólabyggingu á morgun

Verið er að leggja lokahönd á nýju leikskólabygginguna.
Verið er að leggja lokahönd á nýju leikskólabygginguna. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Leikskólabörn í Brákarborg mæta í nýjan leikskóla við Kleppsveg á morgun. Verið er að leggja lokahönd á nýja húsnæðið og pakka niður dóti og munum úr gamla leikskólanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Fram kemur að Brákarborg, sem hefur verið til húsa í Brákarsundi, muni geta tekið við mun fleiri börnum eftir flutninginn. Fer fjöldinn úr 44 börnum í 110.

Heillandi starfsumhverfi muni auðvelda mönnun

„Lóðin er rosalega stór og falleg og er líka hugsuð sem miðstöð fyrir nágrennið þegar leikskólinn er lokaður. Þetta á að vera svona samfélagssvæði,“ er haft eftir Sólrúnu Óskarsdóttur leikskólastjóra í tilkynningunni.

Fram kemur að Sólrún fari ekki varhluta af mönnunarvandanum frekar en aðrir leikskólastjórar, en sé þó bjartsýn á að hún nái að ráða fólk áður en öll ný börn hafa lokið aðlögun.

„Ég held að þegar við getum farið að sýna frá nýja leikskólanum á samfélagsmiðlum að þá eigi aðlaðandi starfsumhverfi eftir að heilla,“ er haft eftir Sólrúnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert