Andlát: Ingvar Gíslason

Ingvar Gíslason
Ingvar Gíslason Ljósmynd/Aðsend

Ingvar Gísla­son fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra lést sl. miðviku­dag á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Seltjörn á Seltjarn­ar­nesi, 96 ára að aldri.

Ingvar fædd­ist í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926. For­eldr­ar hans voru hjón­in Gísli Hjálm­ars­son Kristjáns­son út­gerðarmaður og Fanný Krist­ín Ingvars­dótt­ir hús­móðir.

Ingvar lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri 1947. Hann stundaði nám í ís­lensk­um fræðum við Há­skóla Íslands 1947-1948 og í sagn­fræði við há­skól­ann í Leeds á Englandi 1948-1949. Hann lauk lög­fræðiprófi við Há­skóla Íslands árið 1956.

Mennta­málaráðherra og for­seti þing­flokks

Ingvar gegndi ýms­um störf­um eft­ir námið og var m.a. skrif­stofu­stjóri Fram­sókn­ar­flokks­ins á Ak­ur­eyri 1957-1963 og stundaði jafn­framt ýmis lög­fræðistörf.

Hann var árið 1961 kjör­inn á Alþingi fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn og var alþing­ismaður Norður­lands eystra frá 1961 til 1987. Árið 1980 var Ingvar skipaður mennta­málaráðherra og gegndi því embætti til 1983. Hann var for­seti neðri deild­ar Alþing­is á ár­un­um 1978-1979 og 1983-1987. Hann var formaður þing­flokks Fram­sókn­ar­flokks­ins 1979-1980.

Ingvar sat um ára­bil í stjórn at­vinnu­bóta­sjóðs, síðar at­vinnu­jöfn­un­ar­sjóðs. Hann átti m.a. sæti í rann­sókn­aráði, í stjórn Fram­kvæmda­stofn­un­ar rík­is­ins og sat í húsafriðun­ar­nefnd 1974-1983.

Ingvar átti sæti í Kröflu­nefnd 1974-1980. Hann var full­trúi á þingi Evr­ópuráðsins 1971-1980 og 1983-1987 og sat nokk­ur ár í for­sæt­is­nefnd þess. Hann var í út­varps­rétt­ar­nefnd og í stjórn Þró­un­ar­sam­vinnu­stofn­un­ar Íslands í mörg ár.

Þá var Ingvar um skeið í út­hlut­un­ar­nefnd starfs­launa rit­höf­unda. Ingvar var einnig rit­stjóri tíma­rita og blaða, m.a. Stúd­enta­blaðsins, Vikutíðinda og var rit­stjóri Tím­ans 1987-1991. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tíma­rit og birt voru eft­ir hann nokk­ur ljóð. Hlaut hann verðlaun í ljóðasam­keppni á veg­um menn­ing­ar­mála­nefnd­ar Ak­ur­eyr­ar 1989. Árið 2016 sendi hann frá sér bók­ina Úr laus­blaðabók – Ljóðævi.

Eig­in­kona Ingvars var Ólöf Auður Erl­ings­dótt­ir, f. 1928, d. 2005. Börn þeirra eru: Fanný, Erl­ing­ur Páll, Gísli, Sig­ríður og Auður Inga.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert