Björk gagnrýnir Katrínu

Katrín Jakobsdóttir og Björk Guðmundsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir og Björk Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Samsett

Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir hefur gagnrýnt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir að hafa hætt við að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum árið 2019.

Með yfirlýsingunni ætluðu Björk, aðgerðasinninn Greta Thunberg og Katrín að setja aukinn þrýsting á íslensk stjórnvöld um aðgerðir í loftslagsmálum.

Þegar gefa átti út yfirlýsinguna hætti Katrín við, sagði Björk í samtali við The Guardian. „Ég treysti henni eiginlega, kannski af því að hún er kona – síðan hélt hún ræðu og þá sagði hún ekki orð. Hún minntist ekki einu sinni á þetta. Og ég varð virkilega reið,“ sagði Björk. „Vegna þess að ég var búin að skipuleggja þetta í marga mánuði.“

Greta Thunberg.
Greta Thunberg. AFP/Andy Buchanan

Hún bætti við: „Ég vildi styðja við bakið á henni. Það er erfitt að vera kvenkyns forsætisráðherra,“ sagði Björk og bætti við að Katrín hafi ekkert gert fyrir umhverfið.

Á tónleikaferð Bjarkar árið 2019, Cornucopia, voru spiluð myndbandsskilaboð frá Thunberg, sem hefur vakið heimsathygli fyrir baráttu sína gegn hlýnun jarðar. 

Næsta plata Bjarkar nefnist Fossora og er hún væntanleg í haust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka