Íslenskur kókaínmarkaður í vexti

Miðað við síðustu verðkönnun SÁÁ frá í júní kostar slagið …
Miðað við síðustu verðkönnun SÁÁ frá í júní kostar slagið af kókaíni 17.000 kr. AFP

Mörgum brá sjálfsagt í brún þegar greint var frá því að lögreglan hefði gert upptæka tæplega 100 kg sendingu af kókaíni, sem send var hingað til lands með löglegri vörusendingu. Magnið er allt annað en menn hafa átt að venjast í slíkum málum, en verðmætið vakti ekki síður athygli, því rætt var um að það stappaði nærri tveimur milljörðum króna.

Nú er raunar rétt að taka öllum slíkum tölum með fyrirvara. Þannig eru áhöld um hvert götuverðið sé. Miðað við síðustu verðkönnun SÁÁ frá í júní kostar slagið af kókaíni 17.000 kr, svo upphæðin er nær 1,7 milljörðum króna samkvæmt því. Á móti kemur að verð á fíkniefnum getur verið ærið misjafnt, svo tveir milljarðar, jafnvel meira, eru ekki fjarstæðukenndir.

Svo er annað mál hvaða sögu heildarvirði á götunni segir. Samband innflytjenda, heildsala og smásala er mismikið, en verðið snarhækkar á leiðinni, jafnvel þótt milliliðirnir séu fáir. Heildsöluverð 100 kílóa af kókaíni í Kólumbíu eða Brasilíu getur þannig verið á bilinu 30-50 milljónir króna, en svo verður rækileg hækkun í hafi og heildsalar og smásalar fá svo sína magnafslætti eins og á hverjum öðrum markaði.

Mikil markaðssókn

Vel er þekkt, eins og m.a. hefur verið gerð grein fyrir í sjónvarpsþáttum á borð við Narcos, hvernig kókaín breiddist út um Bandaríkin á 8. áratugnum og þó það hafi verið vel þekkt í Evrópu um svipað leyti, þá hófst önnur markaðssókn þar upp úr aldamótum, þegar vaxtartækifæri á Bandaríkjamarkaði minnkuðu.

Hér að ofan gefur að líta myndrit af kókaínverði á Íslandi, eins og SÁÁ hafa skráð það hjá sér frá aldamótum. Verðið á flestum vímugjöfum hefur ekki breytst mikið í krónum talið, en það hefur verðlagið hins vegar gert á þessum árum, svo hér að ofan er verðið birt á föstu verðlagi miðað við júní 2022.

Sem sjá má geta verðsveiflurnar milli mánaða verið miklar, en þær hafa þó minnkað með árunum, sem kann að gefa til kynna aukið eða a.m.k. jafnara framboð á kókaíni. Það má og sjá hvernig verðið snarlækkar í hruninu og nær nýju jafnvægi til ársins 2018 þegar það snarlækkar aftur. Það hækkar nokkuð í heimsfaraldrinum, enda aðfangakeðjur í molum langt fram á 2021.

Það er hins vegar langtímaverðlækkunin, sem er athyglisverðust og endurspeglar að líkindum aukið framboð hér á landi, líkt og annars staðar á Vesturlöndum. Og það er engin smáræðislækkun, því kókaínverðið er næstum helmingi lægra en í upphafi aldarinnar.

Það segir sig sjálft að með því má ná til fleiri neysluhópa en þá tíðkaðist og verðið alveg komið í afþreyingarflokk.

Kunnugir segja enda að neysluvenjurnar hafi breyst mikið á árunum upp úr hruni. Fólk hafi orðið ófeimnara en áður við að neyta slíkra efna þegar það gerði sér „glaðan dag“ og umburðarlyndi gagnvart því virðist hafa aukist í sumum hópum. Sömuleiðis hafi félagsmiðlar og snjallsímar breytt söluumhverfinu, hægðarleikur sé að panta sér efni með þeim hætti, sem síðan sé skutlað til kaupandans örskömmu síðar.

Aukið framboð á kókaíni á heimsvísu hafi án vafa lækkað verðið hér sem annars staðar og stækkað markaðinn. Þar eigi markaðslögmálin þó við sem annars staðar og innflutningurinn stýrist af eftirspurn og hún sé orðin veruleg.

Mest fer með gámaskipum

Kókaín er algengasti örvandi vímugjafi heims, unnið úr laufum kókarunnans í Suður-Ameríku. Notkun þess er mest á Vesturlöndum og hefur aukist mikið undanfarna áratugi.

Langmest af kókaíni á rætur að rekja til Kólumbíu, en Perú, Ekvador og Brasilía framleiða einnig umtalsvert magn.

Kókaín flæðir aðallega sjóleiðina til Evrópu, fyrst og fremst með hefðbundnum gámaskipum, þar sem efnin eru iðulega falin í annars löglegum gámum án vitneskju eigendanna. Mest fer sjálfsagt um stórhafnir, á borð við Antwerpen og Rotterdam, en Spánn er einnig vinsæll til umskipunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert