„Mönnun heilbrigðiskerfisins er áskorun og því forgangsverkefni innan heilbrigðisráðuneytisins. Gott samtal og samstarf er milli ráðuneytisins, Landspítala, annarra stofnana og fagfélaga. Mikil greiningarvinna er í gangi til skemmri og lengri tíma og verða ákvarðanir byggðar á henni,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, spurður hvernig ráðherra ætli að bregðast við mönnunarvanda á Landspítala.
Hann segir að mönnun lækna og annarra heilbrigðisstétta þurfi að skoða heildstætt og bregðast við á fleiri en einn hátt.
„Háskóli Íslands og Landspítali eru meðal annars að greina hversu marga nema í heilbrigðisstéttum hægt er mennta hér á landi og mun sú greiningarvinna ná til fleiri stofnana. Sérnám lækna á Íslandi hefur eflst mikið og er áfram í sókn. Það felast líka sóknarfæri í ýmiss konar viðbótarþjálfun og símenntun.“
Einnig sé verið að vinna að því að efla vísindastarf, nýsköpun og rafrænar lausnir í heilbrigðiskerfinu sem geti átt stóran þátt í því að gera störf innan heilbrigðisstofnana og Landspítala eftirsóknarverðari.
„Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu, sem stofnað var á síðasta ári, vinnur líka að margvíslegum greiningum á stöðu mönnunar og menntunar og vinnur að tillögum til umbóta.“
Haldið hefur verið á lofti að Landspítali geti ekki tekið tekið við fleiri nemendum í læknisfræði við HÍ, en þeim var fyrir fáeinum árum fjölgað úr 48 í 60. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, segir að spítalinn hafi átt erfitt með að tryggja klíníska hluta námsins með fullnægjandi gæðum með þeim fjölda starfsfólks og því fyrirkomulagi kennslu sem er til staðar í dag.
Hann kveðst ekki vita til þess að ítarleg greining hafi farið fram á því hversu mörgum nemendum í læknisfræði Landspítalinn gæti tekið við með breytingum á fyrirkomulagi klínískra námskeiða, en undirbúningur sé þegar hafinn í samstarfi við forseta læknadeildar HÍ.