Slökkviliðsmenn vilja fá úr því skorið hvort þeir falli undir gildissvið breytingarlaga sem er ætlað að afnema refsinæmi heilbrigðisstarfsfólks.
Vakin er athygli á óskýrleika frumvarpsins, í umsögn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Slökkviliðið er með samning við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur sjúkraflutningaþjónustu. Þykir þó alls kostar óskýrt hvort sá samningur dugi til þess að slökkviliðsmenn í sjúkraflutningum flokkist sem heilbrigðisstofnun og rúmist innan gildissviðs laganna.
„Sjúkraflutningamenn eru heilbrigðisstarfsmenn og ber skylda að veita ákveðna þjónustu og framkvæma inngrip sem rúmast innan þeirra verkferla sem gilda um mismunandi menntunarstig, rík krafa er um gæði þjónustunnar og undanfarin ár og áratugi hefur markvisst verið leitað leiða til að efla þjónustuna,“ segir í umsögninni.
Þá er einnig bent á áskoranir sem slökkviliðsmenn standa frammi fyrir á landsbyggðinni. Þá þurfi oft að sinna bráðveikum eða slösuðum einstaklingum í aðstæðum þar sem langt er í sérhæfða aðstoð.
Slökkviliðsmenn þurfi því að búa yfir mikilli færni og þekkingu til að geta sinnt sjúklingum um lengri tíma til dæmis ef flutningstími í sjúkrabíl er langur eða bíða þarf eftir sjúkraflugi eða þyrlu til að koma sjúklingi á stofnun sem getur veitt sérhæfða meðferð.
„Þess lags aðstæður geta valdið því að tafir geta orðið á sérhæfðum inngripum sem geta komið í veg fyrir andlát eða alvarlegar afleiðingar veikinda eða slysa, fjarlægðir veður og aðrar utanaðkomandi aðstæður geta þar haft áhrif á.“
Þá bendir sambandið á að í vændum sé enn frekari þróun í sjúkraflutningum sem snúi að fjarheilbrigðisþjónustu og öðrum tæknilausnum sem gera sjúkraflutningamönnum kleift að veita betri þjónustu með tengingu við sérfræðinga. Þó umsjónarlæknar sjúkraflutninga starfi hjá heilbrigðisstofnunum, sé daglegur rekstur og umsýsla á forræði slökkviliða.
„Að þessu sögðu er mikilvægt að réttarumhverfi veitingu heilbrigðisþjónustu sjúkraflutningamanna sé skýrt og þróun þess fylgi öðrum heilbrigðisstéttum.“
Þá vísar Landssambandið í orð Sigurðar Líndals, fræðimanns á sviði lögfræði, þess efnis að lagareglur eigi að vera eins skýrar og nákvæmar og frekast er unnt.
„Þær breytingar sem eru kynntar fjalla um „cumulativa hlutlæga refsiábyrgð (ábyrgð án sakar)“ Þessi setning er ekki til þess fallin að almennur skilningur geti verið á inntaki hennar og því erfitt fyrir heilbrigðisstarfmann að átti sig á við hvað er átt“
Loks er gerð athugasemd við orðalag það sem notast er við á vef samráðsgáttar til kynningar á frumvarpinu. Þar er talað um að færa eigi ábyrgð frá starfsfólki yfir á stofnanir, þegar um er að ræða atvik sem rekja megi til „ýmissa samverkandi þátta“ í starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar.
„Hér gerum við athugasemd við orðalagið „margra samverkandi þátta“ teljum við þetta hvorki skýrt né nákvæmt. Verði ekki gerðar frekari skýringar á því hvaða þættir geti fallið þarna undir er líklegt að óvissa ríki um inntakið þar til dómstólar hafa tekið upp mál til efnislegrar meðferðar og lagt sitt mat á, þá er spurning hvaða réttarheimildir eigi að liggja til grundvallar. “
Slökkviliðsmenn telja markmið kynntra breytinga vera af hinu góða, og ítreka að athugasemdirnar snúi að útfærsluatriðum.
„Hins vegar er ljóst að þessar breytingar einar og sér duga ekki til að ná settum markmiðum, til þess þarf átak í að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks á breiðum grundvelli.“