Nærri hundrað manns fluttir slasaðir frá gosinu

Algengast er að fólk meiði sig á ökkla.
Algengast er að fólk meiði sig á ökkla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls hafa 93 verið fluttir slasaðir frá gosstöðvunum og nágrenni þeirra frá því gjósa tók í Meradölum þann 3. ágúst.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu samhæfingarmiðstöðvar almannavarna. Þar segir að algengast sé að fólk slasist á ökkla, en ofkæling og örmögnun eru sömuleiðis sagðar tíðar.

Tekið er fram að lögð verði áhersla á að lagfæra göngu- og neyðarleiðir á svæðinu og merkja þær betur. Ratljós séu komin á alla gönguleið A þar sem mesta hættan hafi verið á að fólk villtist. 

Laga þurfi rúman kílómetra í viðbót, til að öll leiðin sé rudd fyrir viðbragðsaðila og göngufólk. 

390 manns úr 31 björgunarsveit

Bent er á að Brunavarnir Suðurnesja merki það að útköllum vegna sjúkraflutninga hafi fjölgað eftir að gos hófst og útköllin séu alla jafna lengri en annars, eða um 4-5 klukkustundir. 

Á tímabilinu hafi alls 390 einstaklingar úr 31 björgunarsveit tekið vakt á svæðinu.

Unnið sé að skipulagi til áramóta varðandi öryggismál, löggæslu, aðstoð við slasaða og sjúka sem og landvernd við gosstöðvarnar.

Ríkislögreglustjóri hafi lagt það til við forsætisráðuneytið að á gosstöðvunum verði tveir hópar með daglega viðveru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert