„Okkar heitasta ósk að geta fjölgað“

Frá gjörgæsludeild Landspítalans.
Frá gjörgæsludeild Landspítalans. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

„Þessi umræða er búin að vera lengi í gangi og það er okkar heitasta ósk að geta fjölgað,“ segir Þórarinn Guðjónsson, forseti læknadeildar Háskóla Íslands, um mögulega fjölgun nemenda í læknisfræði sem lið í að leysa mönnunarvanda Landspítalans.

Runólfur Pálsson, forstjóri spítalans, sagði við mbl.is í gær að undirbúningur væri hafinn, í samstarfi við forseta læknadeildar HÍ, að því að greina ítarlega hversu mörgum nemendum í læknisfræði Landspítalinn gæti tekið við með breytingum á fyrirkomulagi klínískra námskeiða.

Áður hafði formaður Læknafélags Íslands sagt að fjölga þyrfti í læknadeild hérlendis og að hann vildi að minnsta kosti fá 90 nemendur á ári til að standa undir þeirri eftirspurn sem vænta má eftir starfskröftum í framtíðinni. Fyrir fáeinum árum var nemendunum fjölgað úr 48 í 60 á ári og að sögn Þórarins verða þeir 62 í ár.

Fjölga kennurum og bæta innviði

Aðspurður segir Þórarinn þarfagreiningu þurfa að fara fram á öllu klíníska sviðinu til að sjá hvort gerlegt sé að fjölga nemendunum. Fara þurfi yfir það hvernig námskeið séu sett upp, auk þess sem huga þurfi að grunngreinum.

„Þó það sé hægt að fjölga, þá eykst álagið gríðarlega á deildina. Það þarf að fjölga kennurum og það þarf að huga að innviðum, verkkennslustofum og fleiru. En í grunninn er mikil jákvæðni í að horfa á lausnir og sjá hvað er hægt að gera,“ greinir hann frá.

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Slegist um fyrirlestrarsali

Þórarinn minnist á umræðu um að efla hermikennslu og færnibúðir. Margt sé hægt að gera en slíkt kosti bæði peninga og húsnæði, sem sé af skornum skammti. „Eitt af því sem er stórt vandamál innan háskólans er skortur á fyrirlestrarsölum. Svið og deildir slást um þá. Þannig að það er að mörgu að huga en við störfum mjög náið saman, spítalinn og læknadeild,“ bætir hann við. Hann bendir á að stór hluti læknanna, sem eru ábyrgir fyrir klínísku kennslunni, eru jafnframt starfsmenn læknadeildar HÍ.

Spurður út í ummæli Steinunnar Þórðardóttur, formanns Læknafélags Íslands, um að þörf sé á að minnsta kosti 90 nemendum á ári í læknadeild HÍ segir Þórarinn að deildin geti aldrei tekið slíkt stökk í einu skrefi. Málið snúist ekki bara um fjölgun nemenda innan læknadeildar heldur um aðstöðu og aðbúnað á spítalanum. Meðal annars þurfi gott aðgengi sérfræðinga að rannsóknaraðstöðu á Landspítalanum.

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Unnur Karen

Kraftaverk á hverjum degi 

Þórarinn tekur fram að horfa þurfi jákvætt á hlutina. Nýtt sjúkrahús sé til að mynda í byggingu. Hann kallar á viðhorfsbreytingu í kringum spítalann með bjartsýnni umræðu en verið hefur. „Það virðist ekkert vera gert annað en að tala illa um spítalann. Það er miklu fleira vel gert heldur en er í umræðunni, en það er aldrei sagt frá því. Það er verið að vinna kraftaverk þarna á hverjum degi en ég skil ósköp vel að það sé frústrasjón á spítalanum af því að álagið er alveg gríðarlegt,“ segir hann.

„Það er erfitt að snúa skipinu við ef allir eru neikvæðir. Þá gerist ekkert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert