Yfirgnæfandi stuðningur við Drífu meðal almennings

Drífa Snædal, fyrrverandi formaður ASÍ.
Drífa Snædal, fyrrverandi formaður ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drífa Snædal, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands, naut yfirgnæfandi stuðnings almennings til forystu, ef marka má nýja könnun sem Gallup framkvæmdi dagana 4. til 15. ágúst. 

Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu. Tæpur helmingur þeirra sem tóku könnunina treysta Drífu best til að leiða sambandið og var stuðningurinn nánast óháður breytum, á borð við menntun, búsetu, tekjur eða stjórnmálaskoðanir. 

Kjósendur Sósíalistaflokksins sögðust þó treysta Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, best. 

Vert er að nefna að Drífa sagði af sér sem forseti ASÍ fimm dögum áður en könnuninni lauk, eða þann 10. ágúst. 

Framsóknar- og sjálfstæðismenn treysta ekki Sólveigu

Ragnar Þór var í öðru sæti, samkvæmt könnuninni, en fimmtungur treystir honum best til að leiða verkalýðshreyfinguna. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins var svo í þriðja sæti. 

Kristján Þórður Snæbjarnarson, sitjandi formaður ASÍ, fékk ekki nema 5,7 prósenta stuðning, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hlaut 6,1 prósent atkvæða. 

Sólveig naut meiri stuðnings meðal Pírata, Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins, en fáir sem engir kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sögðust treysta Sólveigu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert