„Ef myndavélin fer þá fer brúin örugglega líka“

Elmar titlar sig sem vesenisfræðing, en hann selur myndavélar, veðurathugunarstöðvar …
Elmar titlar sig sem vesenisfræðing, en hann selur myndavélar, veðurathugunarstöðvar og fleira. Samsett mynd

Elmar Snorrason tók sig til og setti upp vefmyndavél sem sýnir Hvítárbrú ofan við Húsafell í Borgarfirði, sem hann vonar að muni festa á filmu „hugsanlega væntanlegt“ flóð úr Hafrafellslóni, niður Svartá og Hvítá.

Hægt er að sjá uppfærslur á stöðunni á 60 sekúndna fresti inn á vefsíðu sem Elmar setti upp. 

Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands fagnar þessu framtaki og segir það hjálpa til við að gefa fyrirvara til viðbragða.

Elmar hitti náttúruvársérfræðinga í gær þegar hann var að setja upp myndavélina, en þeir voru á sama tíma að koma fyrir nýjum mælitækjum til þess að mæla vatnshæðina.

„Ég er áhugamaður um náttúruöflin og er svo kallaður myndavélasjúkur,“ segir Elmar í samtali við mbl.is.

Það tók Elmar um tvær klukkustundir að setja upp myndavélarnar. Til þess þurfti hann að koma upp nettengingu á svæðinu og rafgeymum. Hann stefnir svo á að setja upp aðra myndavél á mánudag með infrarauðu ljósi sem kæmi til með að ná betri myndum að nóttu til. 

Hér má sjá skjáskot af síðunni klukkan 10:45 í dag.
Hér má sjá skjáskot af síðunni klukkan 10:45 í dag. mbl.is/ Þóra Birna

Skemmtilegt ef flóðið verður saklaust

Elmar býr í Hvalfjarðasveit en vinnur á Húsafelli. Hann er því hálfgerður heimamaður að eigin sögn. 

Spurður hvort hann sé spenntur eða kvíðinn fyrir mögulegu flóði segir hann: „Ef það verða skemmdir verður það verra en ef flóðið verður saklaust þá verður það skemmtilegt.“

Ef flóðið verður svo mikið að það tekur myndavélina með sér, er það fórnarkostnaður sem Elmar er tilbúinn að taka á sig. „Hún er samt það hátt uppi að ef myndavélin fer þá fer brúin örugglega líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert