Kvarta undan framhjákeyrslum strætó

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, fór yfir stöðuna með mbl.is.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, fór yfir stöðuna með mbl.is. mbl.is/Valli

Hátíðarhöld vegna menningarnætur eru í fullum gangi í Reykjavík og streyma borgarbúar í stríðum straumum niður í miðborg Reykjavíkur.

Borið hefur á kvörtunum á samfélagsmiðlum frá fólki, yfir því að bíða hafi þurft lengi eftir strætisvögnum og að þeir hafi keyrt framhjá biðstöðvum, og þá jafnvel ekki einu sinni fullir.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir í samtali við mbl.is að vagnarnir á leið í bæinn séu þétt setnir en heilt yfir hafi gengið vel að ferja fólk í dag.

Spurður hvort vart hafi orðið við mikil vandkvæði svarar Guðmundur því neitandi, en með þeim fyrirvara að hann hafi ekki heyrt annað.

Bæta við vögnum ef álagið er of mikið

„Við erum með laugardagsáætlun en svo erum við núna með fullt af aukavögnum sem eru settir handvirkt inn á leið ef álagið er of mikið. Ef ásinn er við það að fyllast, þá senda þeir vagninn inn á ásinn. Ef þristurinn er að fyllast þá senda þeir vagna inn á þristinn, það er fyrirkomulagið,“ segir Guðmundur.

Hann kveðst telja að álagið fari að minnka þegar það líði á daginn en svo myndist annar toppur þegar flugeldasýningunni í nótt lýkur. 

„Þá munu allir raða sér upp þarna á Sæbrautinni og þá eru eins margir keyrðir í einu út úr bænum eins og við getum. Það er alltaf ævintýri hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert