Undanfarna þrjá daga hefur dregið jafnt og þétt úr virkninni í Meradalagígum og óróanum sem hún hefur framleitt, þannig að núna er engin kvikustrókavirkni sjáanleg í gígunum, óróinn nánast fallinn niður, en þó streymir gas í stríðum straumi upp úr gígnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Háskóla Íslands.
Hegðunin þykir frábrugðin þeirri sem einkenndi lok einstakra goshrina í eldgosinu í Geldingadölum árið 2021, þegar virknin og óróinn stöðvuðust mjög skyndilega.
„Þannig að líklega er þessi hæga slokknun að gefa til kynna goslok. Hópur frá okkur er á gosstöðvunum og við fáum væntanlega staðfestingu á þessu seinna í dag. “