Starfsmenn verktakafyrirtækisins Eyktar vinna þessa dagana að uppsteypu á meðferðarkjarna nýs Landspítala og er framgangur verksins samkvæmt áætlun.
Í framvindu verksins hafa komið upp mörg óvænt mál sem leysa þurfti úr, að sögn Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra Nýs Landspítala ohf. Stálframboð hafi til dæmis breyst mikið á umliðnum mánuðum vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Stríðsreksturinn hafi haft mikil áhrif á allan byggingarmarkaðinn.
Um þessar mundir er unnið að ýmsum verkefnum sem lúta að hönnun á nýju húsi fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Sú bygging mun tengjast svonefndum Læknagarði í Vatnsmýri.
Í næstu viku skrifar heilbrigðisráðherra undir samning um fullnaðarhönnun á 3.800 fermetra nýbyggingu við endurhæfingardeildina á Grensási í Reykjavík. Þá stendur einnig yfir vinna við stoðbyggingar nýja spítalans, það er geymsluhús, flokkunarstöð og eldhús. Öll þau verkefni eru á fullri ferð, en gert er ráð fyrir að tækjavæðing og flutningur á spítalann verði á árunum 2027 og 2028.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.