Ekki hægt að lýsa yfir goslokum

Gosið í Meradölum getur hafist að nýju.
Gosið í Meradölum getur hafist að nýju. mbl.is/Hákon

Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, kveðst ekki tilbúin til þess að lýsa yfir goslokum í Meradölum. 

Hún segir í samtali við mbl.is að gosórói sé dottinn niður, en þó renni enn glóandi hraun frá gígnum og ekki sé hægt að segja með vissu að gosinu sé formlega lokið. 

„Spurning hver næsti kafli verður“

„Það er engin kvikustrókavirkni og þetta er allt annað en var fyrr í vikunni, en það er ennþá mikil afgösun og í nótt var ennþá glóandi hraun að renna frá gígnum.“

Sigríður tekur fram að jarðskjálftavirkni hafi dottið niður í gær, en hún geti þó aftur tekið sig upp.

„Það er spurning hver næsti kafli verður, mun jarðskjálftavirkni taka sig upp eða er þetta alveg búið, það verður bara að koma í ljós.“

Lítil skjálftavirkni

Smá skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga um helgina, en ekkert í líkingu við skjálfta í aðdraganda gossins í Meradölum.

Því séu litlar líkur á gosi á næstu dögum. 

„Við höfum alveg einhverja reynslu af gosum sem deyja út og byrja síðan aftur, eins og til dæmis í Holuhrauni.“

Til að Veðurstofan geti lýst yfir goslokum þurfi engin virkni að vera í nokkra daga eða jafnvel vikur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert