Fimmtán skref eru frá heimili Guðlaugs Georgssonar í vinnuna, en þessi rúmlega sextugi húsasmíðameistari og smíðakennari ákvað fyrir tveimur árum að hætta í vinnunni og fara að smíða, tálga, renna og mála fugla.
Guðlaugur byggði sér lítinn skúr á bak við hús og veit fátt betra en að sitja þar einn með útvarpið á og skera út í ýmsan við lóur, spörfugla, lunda, tjalda, spóa, uglur og rjúpur, svo eitthvað sé nefnt.
Sannkallað fuglager má finna í herbergi uppi á lofti í húsi Guðlaugs og þangað býður hann blaðamanni eftir heimsókn í skúrinn. Á borði og í hillum má sjá afraksturinn sem bíður þess að komast í búðir, en Guðlaugur selur fugla sína víða um land, undir nafninu Fuglagallerí.
„Ég er mest í fuglunum,“ segir Guðlaugur og sýnir blaðamanni fallega lóu sem hann hefur málað. Hann selur bæði málaða og ómálaða fugla, en einnig hefur hann spreytt sig á litlum víkingum og fígúrum sem ferðamaðurinn gæti viljað eiga.
Guðlaugur fæddist á Siglufirði en flutti til Hafnarfjarðar sex mánaða gamall og hefur búið þar allar götur síðan.
„Ég hef nánast búið á sama blettinum alla ævi,“ segir hann og segist hafa lært í húsasmíði í Iðnskólanum í Hafnarfirði.
„Ég vann við húsasmíðar fram að síðustu aldamótum, en fór þá að kenna smíði í Fjölbraut í Garðabæ og hafði kennt þar í 22 ár þegar ég hætti. Þegar mér bauðst þessi vinna fannst mér það fyrst fráleitt, en að athuguðu máli sló ég til og sé ekki eftir því. Þetta var mjög skemmtilegur og gefandi tími, fínir nemendur og gott samstarfsfólk. Fyrir þremur, fjórum árum fannst mér vera komið smá brunabragð af mér, þannig að að athuguðu máli ákvað ég að hætta í kennslunni. Upp úr því fór ég að byrja á að gera fugla, prufaði mig áfram og þetta þróaðist hjá mér smám saman,“ segir Guðlaugur og nefnir að engir tveir fuglar sem hann gerir séu eins.
„Ég hef fengið fínar viðtökur og hef selt fuglana á nokkrum stöðum. Ég byrjaði á að selja þá í Litlu hönnunarbúðinni í Hafnarfirði og síðan hefur stöðunum fjölgað smám saman og sel ég nú til dæmis í Perlunni í Hrísey, Epal, í Húsi handanna á Egilsstöðum og í Bakkabúð á Djúpavogi. Svo má fólk líka hafa samband beint við mig og kaupa af mér.“
Ítarlegt viðtal er við Guðlaug í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.