Árásarmaðurinn á Blönduósi var handtekinn í sumar eftir að hafa haft í hótunum með skotvopni, samkvæmt heimildum mbl.is. Manninum var sleppt í kjölfarið.
Þá herma heimildir að maðurinn hafa komið oftar við sögu lögreglu. Vísir.is greindi fyrst frá en heimildir mbl.is herma það sama.
Tveir létust og einn særðist skotárásinni sem átti sér stað í heimahúsi á Blönduósi rétt fyrir klukkan hálfsex í morgun. Árásarmaðurinn var annar hinna látnu. Samkvæmt heimildum mbl.is var hann fyrrverandi starfsmaður þess sem varð fyrir árásinni.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu var skotvopni beitt gegn tveimur einstaklingum, annar þeirra lést og hinn særðist. Þá fannst árásarmaðurinn látinn á vettvangi. Tveir eru í haldi lögreglu vegna málsins. Fólkið sem tengist málinu er allt heimafólk.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossi Íslands hafa tveir viðbragðshópar með sjálfboðaliðum sem sérhæfa sig í áfallaviðbrögðum og sálrænni skyndihjálp verið sendir á Blönduós. Annars vegar er viðbragðshópur frá Skagaströnd og hins vegar frá Akureyri.