Björgunarsveitarfólk hafði í mörg horn að líta þessa helgina eins og stundum áður.
Björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn voru kallaðir út á Snæfellsnesi í dag. Þar hafði kona orðið fyrir því óláni að ökklabrotna en hún var stödd austur af Snæfellsjökli. Búið var um hana og hún flutt með sexhjóli að sjúkrabíl.
„Í gær komu sjálfboðaliðar björgunarsveitanna ökumönnum fjögurra bíla til aðstoðar sem höfðu fest bíla sína á hálendi og í ám. Í Hólmsá á fjallabaki og Þríhyrningsá á Austurlandi höfðu ökumenn fest bíla sína, á Sprengisandsleið var bíll fastur í leðju og björgunarsveitarfólk flutti farþega úr biluðum bíl á Hlöðufellsvegi á Suðurlandi,“ segir einnig í tilkynningu frá Landsbjörgu.
„Nokkuð var um að aðstoða þyrfti sjúkraflutningamenn við að flytja slasaða einstaklinga við Svartafoss, Snæfellsjökul og Stórhöfða í Vestamannaeyjum.
Snemma morguns á sunnudegi voru kaldir og hraktir göngumenn sóttir í Kistufellsskála og þeim komið til byggða og eftir hádegi kom björgunarsveitarfólk bónda til aðstoðar við að reka hjörð af nautgripum fyrir Tungufljót.“