Um 150 vísindamenn munu taka til máls á alþjóðlegri ráðstefnu sem fjallar um afdrif íss og snævar í hlýnandi loftslagi Jarðar í Hörpu í næstu viku. Alls er búist við að fleiri en 330 vísindamenn sæki ráðstefnuna frá 33 löndum í sex heimsálfum.
Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands sem stendur fyrir ráðstefnunni, segir að í þeim erindum sem verða flutt muni koma fram skýr skilaboð um alvarleika loftslagsbreytinga, sem sé ekki hvað síst sýnileg á norðurhveli.
„Jöklar hafa undanfarin ár rýrnað um alla jörð og hinar stóru ísbreiður Grænlands og Suðurskautslandsins leggja sífellt meira til hækkunar heimshafanna. Snjóa leysir fyrr að vori á norðurslóðum, bráðnun sífrera í fjöllum leiðir til aukinnar skriðuhættu og útbreiðsla hafíss fer minnkandi í Norðurhöfum.
Þessi ummerki hlýnandi loftslags eru vel þekkt og á ráðstefnunni Cryosphere 2022 munu vísindamenn frá flestum heimsálfum kynna nýjustu niðurstöður rannsókna á þessu sviði. Freðhvolfið (e. cryosphere) nær yfir allt frosið vatn á jörðinni og er það nýlunda að fjalla um alla þessa þætti á sömu ráðstefnunni,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur ráðstefnuna á mánudaginn. Þá munu Petteri Taalas, aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra halda opnunarávörp.
Einn fyrirlestur ráðstefnunnar er opinn almenningi. Verður hann í dag klukkan fjögur í Hörpu.
„Það að takast á við loftslagsbreytingar er stærsta verkefni samfélagsins um ókomin ár og vöktun, rannsóknir og miðlun upplýsinga um loftslagsbreytingar er að verða sífellt stærri og mikilvægari þáttur í hlutverki Veðurstofunnar,“ er haft eftir Árna í tilkynningunni.
„Viðbrögð okkar þurfa að byggja á samtali fulltrúa ríkisstjórna, alþjóðastofnana og vísindafélaga og þessi ráðstefna er hluti af því samtali. Ég veit að í erindum sem verða flutt koma fram skýr skilaboð um alvarleika stöðunnar sem er ekki hvað síst sýnileg á norðurhveli, en þar eru breytingarnar örari en annarsstaðar á jörðinni,“ er enn fremur haft eftir Árna sem gegnt hefur formennsku í Global Cryosphere Watch (GCW) sem er samstarfsvettvangur um vöktun á breytingum í freðhvolfinu á vegum Alþjóðlegu veðurfræðistofnunarinnar (WMO).