„Þetta er bara sorglegur harmleikur sem hér hefur átt sér stað. Það er verið að vinna í því að kalla saman áfallateymi til að halda utan um samfélagið,“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar í Húnabyggð, um skotárásina á Blönduósi í morgun.
Tveir létust og einn særðist í skotárásinni sem átti sér stað klukkan hálfsex í morgun. Fólkið sem tengist málinu er allt heimafólk.
Guðmundur segir alla vera í „losti“. Sjálfur sé hann enn að reyna að ná utan um málið.
Einhverjir hafa verið handteknir í tengslum við árásina, en ekki hefur verið gefið upp hve margir. Árásarmaðurinn er annar hinna látnu. Tengsl eru á milli fólksins.
Guðmundur gerir ráð fyrir því að áfallateymi verði staðsett annaðhvort í félagsheimilinu eða kirkjunni og að fólk geti leitað þangað að vild. Upplýst verður um það von bráðar. Hann kýs að tjá sig ekki frekar um málið að svo stöddu.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossi Íslands hafa tveir viðbragðshópar með sjálfboðaliðum sem sérhæfa sig í áfallaviðbrögðum og sálrænni skyndihjálp verið sendir á Blönduós. Annars vegar er viðbragðshópur frá Skagaströnd og hins vegar frá Akureyri.