Betra að baka bara kökuna

Jón Atli Jónasson á vinsælustu bókina á Storytel, glæpasöguna Andnauð.
Jón Atli Jónasson á vinsælustu bókina á Storytel, glæpasöguna Andnauð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það má segja að þetta sé mín fyrsta glæpasaga en ég var einmitt að rifja það upp að ég vann Gaddakylfuna fyrir glæpasmásögu fyrir tíu árum,“ segir rithöfundurinn og handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans í vikunni til að forvitnast um nýju bókina hans, Andnauð. Jón Atli hefur síðasta áratuginn unnið mikið erlendis í kvikmyndum og sjónvarpi, og þá oft við að aðlaga glæpasögur að sjónvarpi. Hann gaf sér þó tíma til að skrifa bók fyrir Storytel og valdi að spreyta sig á glæpasagnaforminu.

Glæpsagan ferðast á milli allra þrepa

„Ég hef alltaf haft gaman af glæpasögum. Hin félagslega skáldsaga á Norðurlöndum er glæpasagan. Hún nær að ferðast á milli allra þrepa samfélagsins. Ég þekkti að mörgu leyti ekki hvernig ætti að skrifa inn í formið, en svo þegar ég byrjaði sá ég að það eru ákveðnir hlutir sem verða að vera. Það þarf að vera plott og spenna og allt þarf að ganga upp,“ segir hann og segir formið í raun mjög opið.  

Hvernig kviknaði hugmyndin að sögunni?

„Ég var með einhverjar útlínur að sögunni en vissi ekki hvað ég myndi gera með efnið; hvort það yrði að bók eða handrit að sjónvarpsseríu.“  

Jón Atli hugsaði sig um og ákvað að henda sér beint í bókarskrif, enda hafi hann áður brennt sig á því að eyða dýrmætum tíma í þróunarvinnu að seríu en vinnan svo verið slegin út af borðinu.

„Stundum er bara betra að baka kökuna,“ segir Jón Atli og er ánægður með útkomuna.

Greinilega eru það fleiri því Andnauð, sem fæst aðeins í hljóð- og rafformi, trónir nú á toppi vinsældalistans hjá Storytel.

Nútíminn tengist fortíðinni

Sögusvið bókarinnar er Reykjavík, bæði í nútímanum en einnig er farið aftur til ársins 1990.

„Þessi nýja saga fjallar um tvær konur sem eru hjón og langar að eignast barn og eru tilbúnar að ganga ansi langt til að láta það gerast. Önnur kvennanna er lögreglukona og er alvarlega veik, sem veldur því að hún er óhæf til að sinna skyldustörfum,“ segir hann og útskýrir að vegna veikinda hennar sé erfitt fyrir hana að fá að ættleiða barn.  

„Því leynir hún veikindunum,“ segir hann og vill auðvitað ekki gefa of mikið upp um framvinduna.

Nú ert þú unglingur um 1990. Hvernig var að skapa þann heim í bókinni? 

„Það var alveg frábært; þetta var svo skemmtilegur tími. Næturlífið var allt öðruvísi en nú. Í bókinni kemur meðal annars fyrir djassbarinn Púlsinn,“ segir hann og segist hafa þurft að kynna sér vel innkomu tölvunnar í samfélagið en margt annað sótti hann í eigin minningabrunn.

 „Svo tengist nútíminn við fortíðina og ég vona að það sé vel gert.“

Ekki ólíkt útvarpsleikhúsi

Er munur á því að skrifa skáldsögu og handrit fyrir sjónvarp og kvikmyndir?

„Þegar maður skrifar bók er einn ritstjóri og kannski tveir sem lesa yfir en þegar ég skrifa handrit erum við jafnvel tíu saman í herbergi. Það er önnur vinna en það sem hjálpaði mér mest við þessa bók er að ég hafði skrifað fyrir útvarpsleiksleikhúsið heimildarleikverk um Guðmundar- og Geirfinnsmálið og eins um málin í Landakotsskóla. Þannig að ég var inni í því hvernig maður vinnur varðandi glæpi, þó að áður hafi ég unnið með sannsöguleg mál. Það var því ekki mikið stökk yfir í að gera hljóðbók því þar eru leikarar að lesa og tónlist. Það er í raun ekki svo ólíkt útvarpsleikhúsinu,“ segir Jón Atli, sem eins og fyrr segir vinnur mest að gerð erlendra sjónvarpssería.

„Ég vinn mikið að seríum en skrifa þær ekki endilega. Ég er oft í þróunarvinnu eða skrifa einn og einn þátt,“ segir Jón Atli og segist hafa dottið inn í bransann erlendis þegar hann bjó í Þýskalandi.

„Þetta er í raun ekki stór heimur. Ég hafði skrifað mynd fyrir Balta og handrit að nokkrum bíómyndum. Það eru margir í bíóbransanum að færa sig yfir í sjónvarpið. Það er orðið sá miðill þar sem fólk er nú að segja sögur. Svo hafði ég unnið lengi í leikhúsi þar sem ég lærði ákveðið handbragð sem nýttist mér vel í þessum skrifum.“  

Óskin um að eignast barn

Hvernig gekk þér að setja þig í spor tveggja lesbía?

„Ég veit það ekki; ég gerði mitt besta. Það er auðvitað flókin umræða, hver hefur leyfi til að skrifa hvað. Sumt myndi ég ekki treysta mér í,“ segir Jón Atli og segist finna sér leið inn í hugarheim persóna á mismunandi hátt.

„Fyrir nokkrum árum skrifaði ég nokkra þætti inn í þýsk-finnska glæpaseríu um lögreglukonu frá Lapplandi sem átti fatlað barn. Nú veit ég ekkert hvernig er að vera lögreglukona í Lapplandi en ég er alinn upp af einstæðri móður, þannig að það var leiðin inn.“

Jón Atli segist hafa sótt í eigin tilfinningar þegar hann skapaði persónur kvennanna í Andnauð.

„Ég skil hvað það er að vilja eignast barn, og ótta fólks við að eignast barn. Eða ótta fólks við að eignast ekki barn,“ segir Jón Atli, en sjálfur á hann þrjár dætur.

Sérðu þessa sögu fyrir þér sem sjónvarpsseríu?

„Já, þessi saga myndi henta vel í slíkt. En hjá mér var hugsunin að skrifa þessa bók og ég held það hafi tekist vel.“

Ítarlegt viðtal er við Jón Atla í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert